Körfubolti

Eiginkonan hjálpaði henni að slá WNBA-metið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Courtney Vandersloot er öflugur leikstjórnandi og spilar með Chicago Sky í WNBA-deildinni í körfubolta.
Courtney Vandersloot er öflugur leikstjórnandi og spilar með Chicago Sky í WNBA-deildinni í körfubolta. Getty/Julio Aguilar

Courtney Vandersloot setti nýtt stoðsendingamet í WNBA-deildinni í körfubolta í vikunni þegar hún gaf átján stoðsendingar í leik með Chicago Sky liðinu.

Gamla metið yfir flestar stoðsendingar í einum leik var þegar Ticha Penicheiro gaf sextán stoðsendingar á sínum tíma. Penicheiro náði því reyndar tvisvar eða bæði 1998 og 2002. Metið var því orðið 22 ára gamalt.

Metið féll í leik Chicago Sky á móti Indiana Fever sem endaði með 100-77 sigri Chicago Sky liðsins.

Courtney Vandersloot jafnaði stoðsendingametið þegar 3:22 mínútur voru eftir af leiknum en það var við hæfi að eiginkonan hjálpaði henni að bæta það.

Allie Quigley skoraði þá þriggja stiga körfu eftir stoðsendingu frá Courtney Vandersloot og stuttu síðar skoraði Allie aftur eftir stoðsendingu frá Courtney. Vandersloot var því komin með átján stoðsendingar í leiknum og nýtt glæsilegt WNBA-met.

Courtney Vandersloot og Allie Quigley giftu sig í desember 2018 en þær hafa spilað lengi saman hjá Chicago Sky liðinu.

„Þetta er mjög gaman. Ég hélt í alvörunni að það væri ekki hægt að slá þetta met. Liðsfélagarnir mínir voru að hitta úr skotunum sínum og þær voru jafnánægðar og ég,“ sagði Courtney Vandersloot eftir leikinn.

Courtney Vandersloot endaði leikinn með 13 stig og 18 stoðsendingar en eiginkonan Allie Quigley var með 19 stig. Chicago Sky endaði líka tveggja leikja taphrinu með þessum sigri.

„Þetta eru góð verðlaun fyrir leikmann sem er svo óeigingjörn. Hún nýtur þess að sjá liðsfélaga sína skora og að koma þeim í góð færi til að skora. Það er sérstakt að hafa slíkan leikmann í sínu liði og ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut,“ sagði James Wade, þjálfari Chicago Sky liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×