Viðskipti innlent

Ríf­lega 28 þúsund beiðnir um endur­greiðslu enn á borði Icelandair

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flugfloti Icelandair á Keflavíkurflugvelli í samgöngubanni
Flugfloti Icelandair á Keflavíkurflugvelli í samgöngubanni Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Icelandair hefur endurgreitt hátt í 107 þúsund bókanir frá öllum markaðssvæðum félagsins frá því að kórónuveirufaraldurinn skall á. Að baki hverri bókun og þar af leiðandi endurgreiðslubeiðnum getur verið fjöldi farþega. Í dag eru rúmlega 28 þúsund beiðnir útistandandi.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Ásdísar Ýrar Pétursdóttur upplýsingafulltrúa Icelandair við fyrirspurn fréttastofu. Millilandaflug hefur verið í lágmarki í alllangan tíma vegna faraldursins og hafa niðurfellingar á flugi því haft áhrif a hundruð þúsund farþega Icelandair.

Greint var frá því fyrr í dag að hundruð mála eru á borði Neytendasamtakanna vegna endurgreiðslna sem ekki hafa borist fyrir flugmiða í ferðum sem ekki voru farnar hjá Icelandair. Til standi að funda með forsvarsmönnum Icelandair um mánaðamótin um lausn þessara mála.

Þriðjungur farþega sem ekki fengu að fara í flug hafa óskað eftir endurgreiðslu

Gríðarlegur fjöldi mála er því á borði félagsins auk þess sem hluti starfsmanna Icelandair var í hlutastarfi um tíma. Endurgreiðslur hafa því tekið töluvert lengri tíma en undir venjulegum kringumstæðum að því er fram kemur í svarinu.

„Markmið okkar er að leysa úr þessum málum gagnvart viðskiptavinum okkar eins fljótt og auðið er og við höfum til að mynda innleitt tæknilausn til að einfalda endurgreiðsluferlið og auka afkastagetu,“ segir í svarinu.

Um þriðjungur þeirra farþega sem komust ekki í flug sitt sökum niðurfellingar hefur óskað eftir endurgreiðslu. Tveir þriðjungar hafa því óskað eftir breytingum á flugáætlun eða eftir því að fá inneign hjá félaginu.


Tengdar fréttir

Skoða að sölutryggja hlutafjárútboðið

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að það komi til greina og sé til skoðunar að sölutryggja fyrirhugað hlutafjárútboð Icelandair.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×