Viðskipti innlent

Atvinnumarkaðurinn ekki kominn í frost

Erla Björg Gunnarsdóttir og Andri Eysteinsson skrifa

Ráðgjafi hjá ráðningafyrirtæki segir atvinnumarkaðinn ekki kominn í frost, enn sé hreyfing og störf í boði en umsækjendur um hverja stöðu séu mun fleiri en vanalega.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að ekki sé óalgengt að hundrað og jafnvel upp í tvö hundruð manns sæki um auglýstar stöður á vinnumarkaði. Ráðgjafi hjá Hagvangi staðfestir þessa þróun.

„Fleiri eru að sækja um störf hjá okkur, meira en verið hefur. Ég held að með haustinu eigi þetta eftir að aukast meira. Ég hugsa að það komi einhver holskefla með haustinu,“ segir Sverrir Briem ráðgjafi hjá Hagvangi.

Þó séu ekki eins margar umsóknir þegar kemur að stjórnunarstörfum. Sverrir segist hafa séð það svartara á vinnumarkaði en núna, enn sé hreyfing á störfum.

„Við finnum alveg fyrir því að það eru alveg störf í boði enn sem komið er fólk er kannski líka að nýta tímann í að endurskipuleggja sig og fá tíma til að hugsa hvað þau eiga að gera og hvernig þau gera þetta. Þannig að það er líf á vinnumarkaði enn sem komið er allavega,“ segir Sverrir.

Hann ráðleggur atvinnuleitendum að leggja mikla vinnu í ferilskrá, efla tengslanetið og ekki gefast upp. „Það er vinna að sækja um vinnu og það þarf að gefa sér góðan tíma í þetta og sýna þolinmæði,“ sagði Sverrir Briem ráðgjafi hjá Hagvangi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×