Körfubolti

Lárus: Þetta bjargaði deginum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lárus Jónsson
Lárus Jónsson Þór TV / thorsport.is
Þór vann ótrúlegan endurkomusigur á Grindavík í Dominos deild karla í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld eftir að hafa verið undir nær allan leikinn.

„Mér líður rosalega vel. Miðað við allar fréttir í dag og hvernig 2020 er búið að vera bjargaði þetta í það minnsta deginum,“ sagði Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, í leikslok.

„Það gekk mjög erfiðlega að ná að minnka forystuna. Mér fannst við spila miklu betur í síðari hálfleik. Vörnin okkar var hriplek í fyrri hálfleik en mér fannst við ná að þétta hana í síðari hálfleik en þá var Ingvi að setja niður stóra þrista fyrir þá. Við náðum aldrei að komast almennilega inn í þetta. Þetta var eiginlega bara kraftaverk í lokin. Ég held við höfum skorað 11 stig á rúmri mínútu.“

Lárus hrósaði sínu liði fyrir magnaðan karakter um leið og hann sagði ótrúlegt að finna fyrir stuðningi Þórsara í Höllinni í kvöld.

„Strákarnir gáfust aldrei upp. Mér fannst bæði lið vera svolítið á hælunum í upphafi, kannski vegna aðstæðna í þjóðfélaginu. Menn voru búnir að vera að velta fyrir sér hvort það ætti að spila leikinn og þetta var svolítið eins og æfingaleikur í byrjun. Mér finnst ótrúlegt hvað það mættu margir og studdu við bakið á okkur. Það gerði gæfumuninn á þessum lokasekúndum,“ sagði Lárus.

Þór þarf sigur gegn KR í lokaumferð deildarinnar og um leið þurfa Akureyringar að treysta á að Valur eða Þór Þorlákshöfn fái ekki fleiri stig. Óvissa ríkir hvenær og með hvaða hætti lokaumferð deildarinnar verður spiluð.

„Við munum bara undirbúa okkur fyrir að spila við mjög öflugt lið KR, sennilega fyrir luktum dyrum og það er miður. Ef þú ert ekki að spila fyrir framan áhorfendur, til hvers ertu þá að spila íþróttir?“ sagði sigurreifur þjálfari Þórs að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×