Körfubolti

Lakers vilja bæta við sig leikmanni fyrir lokasprettinn

Ísak Hallmundarson skrifar
J.R. Smith og LeBron James spiluðu saman hjá Cleveland Cavaliers
J.R. Smith og LeBron James spiluðu saman hjá Cleveland Cavaliers vísir/getty

Los Angeles Lakers eru á meðal þeirra NBA-liða sem þykja hvað líklegust til að berjast um NBA-meistaratitilinn í vor. Þeir leita nú leiða til að styrkja sig fyrir komandi átök.

Lakers er með eitt laust pláss í leikmannahópi sínum eftir að þeir létu Troy Daniels fara frá félaginu fyrr í vikunni. Þeir skoða nú ýmsa möguleika og koma tveir leikmenn helst til greina.

J.R. Smith, sem lék með Cleveland Cavaliers og vann meistaratitilinn með LeBron James árið 2016, er annar þeirra leikmanna sem Lakers vilja fá til liðs við sig. Hann skoraði 12 stig og tók 4 fráköst í oddaleiknum við Golden State Warriors árið 2016 þegar Cleveland vann sinn fyrsta meistaratitil. Hann hefur hinsvegar ekki spilað leik í NBA síðan í nóvember 2018 þegar samningi hans við Cleveland var rift.

Hinn leikmaðurinn sem liðið er að skoða er bakvörðurinn Dion Waiters sem lék síðast með Miami Heat á þessu tímabili en kom aðeins við sögu í þremur leikjum.

Waiters var valinn nr. 4 í nýliðavalinu árið 2012 og á tímabilinu í fyrra spilaði hann 44 leiki fyrir Heat og var með 12 stig, 2,8 stoðsendingar og 2,6 fráköst að meðaltali í þeim leikjum. Waiters er með sama umboðsmann og LeBron James og Anthony Davis sem spila fyrir Lakers.

Bæði Smith og Waiters hafa mætt á æfingu hjá Lakers-liðinu í vikunni til reynslu.

LA Lakers eru á toppi Vesturdeildarinnar í NBA og hafa unnið 47 leiki af 60. Efstu 8 lið deildarinnar komast í úrslitakeppnina og sigurvegarinn mætir svo sigurvegara Austurdeildarinnar í úrslitum um NBA-meistaratitilinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×