Viðskipti erlent

Samsung sendi dularfull skilaboð til allra síma fyrirtækisins

Samúel Karl Ólason skrifar
Skilaboðin hafi verið send fyrir slysni þegar verið var að gera próf með forritið.
Skilaboðin hafi verið send fyrir slysni þegar verið var að gera próf með forritið. EPA/Yonhap

Samsung sendi undarleg skilaboð í alla síma fyrirtækisins i nótt og í morgun og var það gert fyrir slysni. Skilaboðin, sem bárust í gegnum Find My Mobile forritið, innihéldu eingöngu tölustafinn 1 tvisvar sinnum í tveimur línum. Nokkrum klukkustundum eftir að skilaboðin voru send út, tjáðu forsvarsmenn Samsung sig um þau og sögðu mistök hafa verið gerð.

Skilaboðin hafi verið send fyrir slysni þegar verið var að gera próf með forritið.

Find My Mobile er nokkuð mikilvægt forrit sem eigendur síma geta notað til að finna þá, læsa þeim, eyða gögnum af þeim og koma í veg fyrir að þjófar borgi fyrir vörur með símum.

Fjöldi eigenda síma Samsung lýstu yfir áhyggjum af skilaboðunum. Þegar smellt var á þau gerðist ekki neitt annað en að skilaboðin hurfu.

Samsung segir þó að skilaboðin hafi engin áhrif á símana og hefur beðist afsökunar á ónæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×