Körfubolti

Tvíburar nú í sitthvoru NBA-liðinu í Los Angeles borg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markieff Morris og Marcus Morris eftir einn af leikjunum þar sem þeir hafa mæst inn á NBA vellinum.
Markieff Morris og Marcus Morris eftir einn af leikjunum þar sem þeir hafa mæst inn á NBA vellinum. Getty/Adam Glanzman

Los Angeles Lakers samdi við Markieff Morris í gær sem eru sérstaklega áhugaverðar fréttir úr NBA-deildinni í körfubolta út frá því hvar tvíburabróðir hans spilar.

Markieff Morris mun fá það hlutverk að koma inn af bekknum hjá Lakers liðinu og mögulega leysa Anthony Davis af. Markieff Morris er 203 sentímetrar en um leið fínasta þriggja stiga skytta.

Los Angeles liðin, Lakers og Clippers, eru líkleg til að fara langt í NBA-deildinni en þau hafa bæði bætt við sig stórstjörnum á síðustu árum. Það þykir líklegt að LA-liðin mætist í úrslitakeppninni.

Á dögunum fékk Los Angeles Clippers Marcus Morris, tvíburabróðir Markieff, í leikmannaskiptum við New York Knicks. Marcus Morris skoraði tíu stig í fyrsta leik sínum með Clippers og er með 9,8 stig og 4,8 fráköst að meðaltali í fyrstu fjórum leikjunum.



Marcus Morris hafði verið með 19,6 stig og 5,4 fráköst að meðaltali í búningi New York Knicks í vetur.

Markieff Morris gerði starfslokasamning við Detroit Pistons og var því laus allra mála. Hann valdi það að semja við Los Angeles Lakers.

Markieff Morris var með 11,0 stig, 3,9 fráköst og 1,6 stoðsendingu að meðaltali á 22,5 mínútum í leik með Detroit Pistons í NBA-deildinni í vetur.



Markieff Morris hefur alls spilað 623 leiki í NBA-deildinni með liðum Phoenix Suns, Washington Wizards, Oklahoma City Thunder og Detroit en í þeim er hann með 11,6 stig, 5,4 fráköst og 1,7 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Markieff og Marcus Morris eru fæddir 2. september 1989 eru því á 31 aldursári. Morris er sjö mínútum yngri en Markieff.

Markieff Morris hefur spilað alls 24 leiki í úrslitakeppni NBA þar af 13 þeirra á 206-17 tímabilinu með Washington Wizards. Marcus Morris hefur spilað 32 leiki í úrslitakeppninni þar af 19 þeirra með Boston Celtics á 2017-18 tímabilinu.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×