Fótbolti

„Evrópskt vandamál en ekki ítalskt vandamál“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maurizio Sarri á blaðamannafundinum í gær.
Maurizio Sarri á blaðamannafundinum í gær. Getty/Daniele Badolato

Maurizio Sarri, knattspyrnustjóri Juventus, segir að stuðningsmenn liðsins séu í fullum rétti að mæta á leikinn á móti Lyon í kvöld í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Kórónuveiran er farin að breiðast út á Ítalíu og af þeim sökum fá engir áhorfendur að fylgjast með þegar Juventus mætir Internazionale í ítölsku deildinni um helgina.

Leikur Lyon og Juventus er fyrri leikur liðanna en sá síðari fer síðan fram á Ítalíu.

Kórónuveiran er farin að hafa áhrif á íþróttaviðburði og ekki lengur bara í Kína þar sem veiran uppgötvaðist fyrst.



Maurizio Sarri segir að þetta sé „evrópskt vandamál en ekki ítalskt vandamál“ þegar hann var spurður út í ótta manna um smit þegar stuðningsmenn ítalska félagsins mæta til Frakklands.

„Auðvitað þurfum við að taka á þessu vandamáli og yfirvöld þurfa byrja á því að stöðva útbreiðsluna,“ sagði Maurizio Sarri.

„Á Ítalíu hafa verið gerð 3500 próf og úr þeim hafa fundist ákveðin fjöldi jákvæðra sýna. Það hafa verið gerð 300 próf í Frakklandi en líklega hefðu fundist jafnmörg jákvæð sýni þar ef prófin hefðu verið jafnmörg,“ sagði Sarri.

Hann vill ekki að ábyrgðin á hugsanlegri útbreiðslu sé á herðum stuðningsfólks Juventus sem mætir til Lyon í kvöld.

„Stuðningsmenn okkar eru í fullum rétti þegar þeir mæta á leikinn,“ sagði Sarri.

Leikur Lyon og Juventus hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir Meistaradeildina hefst klukkan 19.15 á Stöð 2 Sport og eftir leikina verða þeir gerðir upp í Meistaradeildarmörkunum á sömu stöð. Leikur Real Madrid og Manchester City verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×