Körfubolti

Ólöf Helga: Er ekki reið en svolítið sár

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ólöf Helga í leik með Haukum.
Ólöf Helga í leik með Haukum. vísir/daníel þór

Körfuknattleiksdeild Hauka ákvað í morgun að reka Ólöfu Helgu Pálsdóttur sem þjálfara kvennaliðs félagsins. Tíðindin komu nokkuð á óvart.

Liðið er í fimmta sæti Dominos-deildar kvenna en þó aðeins tveimur stigum frá þriðja sætinu.

„Mér skilst að þessi hugmynd hafi komið í gær og ákvörðun tekin í kjölfarið. Ég átti alls ekki von á þessu. Þeir hringdu í mig og ráku mig. Boðuðu engan fund,“ sagði Ólöf Helga í morgun.

„Ástæðan sem þeir gáfu mér er að þeir séu ekki nógu ánægðir með árangurinn og vildu gera breytingar. Við erum einum sigri frá þriðja sætinu og nóg eftir. Ég hafði fulla trú á liðinu og mér.“

Þjálfarinn segir að tímabilið hafi verið erfitt og einnig lærdómsríkt.

„Ég verð líka að líta í eigin barm því ég veit að ég gerði fullt af mistökum. Það hefur gengið mikið á. Meiðsli og svo Kanavesen. Ég er ekkert reið yfir þessari ákvörðun en svolítið sár. Ég hefði viljað vita af þessari óánægju fyrr og fá að ræða það við stjórnina. Það eru blendnar tilfinningar hjá mér því ég hafði trú á því að liðið myndi toppa á réttum tíma.“

Ólöf Helga var aðeins ein af tveimur kvenþjálfurum deildarinnar og hún er ekkert af baki dottin.

„Ég stefni á að halda áfram í þjálfun. Ég hef lært mikið af þessu tímabili og nýti mér þessa reynslu til þess að verða betri þjálfari,“ segir þjálfarinn sem vonar að Haukaliðið standi sig vel það sem eftir er.

„Mér þykir vænt um þessar stelpur og vona að þeim gangi allt í haginn. Ég mun mæta eitthvað í stúkuna og hvetja þær áfram.“

Bjarni Magnússon, aðstoðarþjálfari Ólafar, mun stýra liðinu tímabundið á meðan leitað er að nýjum þjálfara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×