Enski boltinn

Giggs hefur áhyggjur af því að missa vonarstjörnu Liverpool í enska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neco Williams kyssir Liverpool merkið eftir að hafa lagt upp sigurmarkið á móti Shrewsbury Town.
Neco Williams kyssir Liverpool merkið eftir að hafa lagt upp sigurmarkið á móti Shrewsbury Town. Getty/John Powell

Velskur unglingalandsliðsmaður spilaði frábærlega með krakkaliði Liverpool í enska bikarnum á dögunum og gæti ákveðið að spila frekar fyrir England. Landsliðsþjálfarinn Ryan Giggs hefur áhyggjur.

Liverpool leikmaðurinn Neco Williams sem er átján ára gamall og hefur verið að simpla sig í litlum skömmtum á Anfield á þessu tímabili.

Neco Williams hefur leikið fyrir nítján ára landslið Wales en afi og amma hans eru ensk. Hann á því möguleika á því að spila fyrir enska landsliðið.

Neco Williams hefur spilað fjóra leiki með aðalliði Liverpool og átti stórleik í bikarsigrinum á Shrewsbury Town. Svo öflugur er hann að margir sjá hann eigna sér hægri bakvarðarstöðu Liverpool í framtíðinni og að Trent Alexander-Arnold færi sig þá inn á miðjuna.



„Þú hefur alltaf áhyggjur þegar stóru þjóðirnar banka á dyrnar en Neco kom upp í gegnum starfið hjá Wales. Það gerist ekki alltaf en það viljum við að gerist.  Paul Bodin, Rob Edwards og Rob Page (unglingalandsliðsþjálfarar Wales) hafa notið þess að vinna með honum og hann elskar að spila fyrir Wales. Við verðum bara að bíða og sjá hvað verður,“ sagði Ryan Giggs.

Næst á dagskrá hjá velska landsliðinu eru vináttulandsleikir við Austurríki og Bandaríkin í mars en liðið er að undirbúa sig fyrir Evrópumótið í sumar. Það er búist við því að Giggs velji þá Neco Williams í A-landsliðið í fyrsta sinn. Neco Williams ætti þá möguleika að vera með Wales á EM.

„Þetta er síðasta tækifærið fyrir mig að skoða leikmenn fyrir EM og að sjá þessa menn sem ég hef kannski ekki séð mikið af. Við erum augljóslega að skoða Neco af því að hann hefur verið að spila fyrir frábært lið þar sem hann hefur staðið sig vel þegar kallið hefur komið,“ sagði Giggs.

„Hann er frábær leikmaður en hann er enn þá ungur og enn að læra,“ sagði Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×