Golf

Tiger Woods endaði í síðasta sæti á Genesis Invitational en Adam Scott vann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Adam Scott fagnar sigri á Genesis Invitational. Hér er hann með Tiger Woods sem endaði í neðsta sætið.
Adam Scott fagnar sigri á Genesis Invitational. Hér er hann með Tiger Woods sem endaði í neðsta sætið. Getty/Chris Trotman/

Ástralinn Adam Scott lék best allra á Genesis Invitational golfmótinu í Bandaríkjunum sem lauk í gær en þetta var fyrsti sigur hans á PGA-mótaröðinni í næstum því fjögur ár.

Adam Scott endaði tveimur höggum á undan þeim Scott Brown, Sung Kang og Matt Kuchar. Scott kom inn á 273 höggum eða á 11 höggum undir pari.



Þrátt fyrir að þetta hafi verið fyrsti sigur Adam Scott á mótaröðinni í langan tíma þá vann hann síðasta mótið sitt á undan þessu en það var ástralska PGA-mótið fyrir tveimur mánuðum síðan. Scott hafði ekki tekið þátt í móti síðan þá en kom sterkur inn á Riviera.

Með þessum sigri þá kemst Adam Scott upp í sjöunda sæti heimslistans en hann hefur ekki verið inn á topp tíu í næstum því þrjú ár.

 



Það gekk ekki alveg eins vel hjá Tiger Woods. Woods kom inn á sex höggum yfir pari á lokadeginum og varð að sætta sig við 68. og neðsta sætið á mótinu. Hann lék holurnar 72 á alls 295 höggum eða ellefu höggum yfir pari. Hann var því 22 höggum á eftir sigurvegaranum Adam Scott.

Tiger Woods kvartaði yfir stífleika í baki eftir hringinn á laugardaginn en kláraði samt í gær. Hann mun hins vegar ekki keppa á WGC-Mexico mótinu í komandi viku.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×