Körfubolti

Frið­rik Ingi: Þurftum að spila með á­nægju og gleði

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson er þjálfari Þórs.
Friðrik Ingi Rúnarsson er þjálfari Þórs. vísir/bára

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar var temmilega ánægður með sigur gegn Fjölni í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Hann ræddi um að liðið hans hefði unnið eftir að þeir náðu að finna jafnvægið í sókn og vörn hjá sér.

„Menn föttuðu á seinustu tíu mínútunum að það væri engin ástæða til að vera að svekkja sig yfir hinu og þessu í leiknum. Ég ræddi það einmitt í einu leikhléinu að við yrðum áfram að gera það sem við vorum að gera framan af; að spila með ánægju og gleði,“ sagði Friðrik um hugarfarsbreytinguna sem hefði komið aftur jafnvægi á spil sinna manna á lokakafla leiksins.

Leikurinn var ekki upp á hundrað hjá Þórsurum, benti Friðrik hins vegar réttilega á: „Já, alls ekki gallalaus leikur. Srdan lék aðeins lausum hala á einum kafla í leiknum, en við breyttum áherslum og náðum að loka á það. Þvinguðum þá í erfiðari skot og náðum þá taktinum aftur.“

Þór heimsækir næst Grindavík á útivelli, en þeir hafa hingað til ekki átt góðu gengi að fagna utan eigin heimavallar. „Við erum að fara í leik við lið sem við erum að berjast um stöðu í deildinni við og sá leikur er mjög stór. Í sumum leikjum á útivelli höfum við verið býsna góðir og verið nálægt því að vinna en í öðrum höfum við verið arfaslakir,“ sagði Friðrik um slakt gengi liðsins í útileikjum.

„Við þurfum að koma með rétt hugarfar og reyna svolítið að byggja á síðustu leikjum. Vörnin var lengstum betri í dag en hún var á móti Haukum í fjórða leikhluta en sóknarleikurinn á móti þeim var fínn. Við erum að reyna finna jafnvægið,“ sagði Friðrik, augljóslega einbeittur á þessu jafnvægi milli sóknar og varnar hjá sínum mönnum.

„Þetta er bara áframhaldandi og stöðug vinna,“ sagði Friðrik að lokum og bætti við: „Við þurfum að gíra okkur upp í næsta leik eins og alla aðra leiki. Hver leikur núna er upp á líf og dauða.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×