Viðskipti innlent

Heitir því að uppfylla skyldur Samherja gagnvart skipverjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Samherji dregur nú saman seglin í Namibíu eftir að engin skip dótturfyrirtækjanna fengu kvóta þar.
Samherji dregur nú saman seglin í Namibíu eftir að engin skip dótturfyrirtækjanna fengu kvóta þar. Vísir/Sigurjón

Allar skyldur Samherja gagnvart skipverjum sem hafa unnið fyrir fyrirtækjasamstæðuna verða uppfylltar áður en fyrirtækin hætta alfarið starfsemi í Namibíu. Í tilkynningu frá Samherja fagnar fyrirtækið að mál gegn íslenskum skipstjóra í landinu hafi verið til lykta leitt í gær.

Namibískir skipverjar hafa búið við óvissu um störf sín eftir að Samherji ákvað að flytja tvö skip frá landinu, Geysi og Sögu. Björgólfur Jóhannsson, settur forstjóri Samherja, hefur vísað til þess að skipin hafi ekki fengið úthlutað kvóta í Namibíu til að réttlæta ákvörðunina. Saga er nú sögð á leið í slipp til viðhalds og lagfæringa og Geysir er við veiðar við Máritaníu.

Í yfirlýsingu sem Samherji birti á vefsíðu sinni í dag er fullyrt að dótturfyrirtæki samstæðunnar muni uppfylla allar skyldur gagnvart skipverjum sem hafa unnið fyrir þau áður en samstæðan hætti alfarið starfsemi þar. Fulltrúar Samherja hafi fundað með sjómönnunum og fulltrúum stéttarfélaga þeirra. Reynt verði að veita eins mörgum þeirra vinnu áfram og mögulegt er.

Í því samhengi vísar Samherji til verksmiðjutogarans Heinaste sem er eina skipið sem samstæðan átti eftir í Namibíu. Fyrirtækið segist vinna að því að gera Heinaste út í Namibíu og vinni að því að finna lausnir í samráði við þarlend stjórnvöld.

„Að minnsta kosti tímabundið verður þetta fólgið í leigu á Heinaste til namibískra aðila sem stunda útgerð í landinu. Samherji leggur ríka áherslu á að finna lausnir sem henta namibískum áhafnarmeðlimum skipsins, namibísku samfélagi og minnihlutaeigendum eignarhaldsfélags Heinaste,“ segir í tilkynningunni.

Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri Heinaste, var dæmdur til að greiða tæplega átta milljóna króna sekt fyrir ólöglegar veiðar í namibískri lögsögu í gær. Samherji fangar því að málinu sé lokið í yfirlýsingu sinni og segir það skapa ný tækifæri í rekstri skipsins.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.