Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Njarð­vík 89-84 | Tólfti sigur Stjörnunnar í röð

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
vísir/bára

Stjarnan tók á móti Njarðvík í kvöld í seinni sjónvarpsleik Dominosdeildar karla. Fyrir leik var Stjarnan efst í deildinni með 13 sigra í fimmtán leikjum á meðan að Njarðvíkingar sátu í því sjötta með 9 sigra. Heimamenn sýndu styrk sinn í leiknum, komu til baka eftir slaka byrjun og unnu 89-84 í spenandni viðureign.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel og tóku forystuna fljótlega með góðri vörn og agaðari sókn. Stjarnan átti ekki auðvelt með að skora framan af og börðust í bökkum með að finna taktinn í leiknum. Þar skipti mestu að gestirnir úr Njarðvík voru fastir fyrir og gáfu lítið eftir.

Strax í öðrum leikhluta fór sóknarleikur Stjörnunnar að batna og þeir unnu leikhlutann með þremur stigum. Nick Tomsick setti fyrstu stigin sín í leiknum með lokaskoti fyrri hálfleiksins, en hann orðinn þekktur fyrir flautukörfur. Njarðvík leiddi með tveimur stigum í hálfleik.

Stjörnumenn tóku öll völd í upphafi seinni hálfleiks með því að keyra upp ákafann hjá sér og sneru dæminu við. Nú voru heimamenn að ýta gestunum út úr sínum aðgerðum og voru komnir yfir í stigaskori áður en Njarðvíkingar gátu gert nokkurn skapaðan hlut.

Þrátt fyrir gestirnir grænklæddu næðu aðeins að finna körfuna betur eftir því sem á leið var Stjarnan byrjuð að rúlla og þeir unnu leikhlutann hæglega.

Í lokafjórðungnum fóru Njarðvíkingar að saxa aðeins á og þegar nokkrar mínútur voru eftir til leiksloka gerði Chaz Williams sitt ítrasta til að vinna leikinn fyrir sína. Hann skoraði ellefu stig í röð og kom Njarðvík yfir þegar rúm mínúta var eftir af leiknum.

Fyrirliði Stjörnunnar, Hlynur Bæringsson, steig þá upp og setti stóran þrist til að taka forystuna á ný. Njarðvík gat ekki endurheimt forskotið eftir það og Stjarnan náði að tryggja sigurinn á lokasekúndunum. Lokastaðan varð eins og áður sagði 89-84 fyrir Stjörnunni.

Það vakti athygli í leiknum að leikmenn beggja liða skrikaði oft fótur á sleipu gólfinu, en heimildir herma að handboltalið Stjörnunnar hafi verið að stelast í að æfa í Mathúsi Garðabæjar-höllinni. Það sást greinilega enda klístur á gólfi hér og þar og oft stutt í að leikmenn tognuðu við það að renna á parketinu.

Af hverju vann Stjarnan?

Stjarnan átti nógu mörg vopn til að fleyta sér áfram í fyrri hálfleik þegar að Njarðvíkingar tóku nokkra leikmenn út úr sínum aðgerðum.

Í seinni hálfleik mættu þeir einbeittari og höfðu augljóslega aðlagað sig að spili gestanna. Þeir tóku öll völd í þriðja leikhlutanum og byggðu upp nægilega góða forystu til að standa af sér áhlaup Njarðvíkinga í lok leiksins.

Bestu leikmenn vallarins

Urald King var fremstur meðal jafningja í leik kvöldsins með 16 stig og 13 fráköst. Hann fleytti liðinu áfram á köflum þegar að liðsfélagi hans, Nick Tomsick, var klipptur út úr sókn Stjörnunnar framan af. Tomsick fann sig að lokum og varð stigahæstur hjá Stjörnunni með 20 stigum, þ.a. 11 þeirra stiga í þriðja leikhluta.

Aurimas Majauskas, litháenskur framherji Njarðvíkur, var bestur hjá sínu liði í kvöld. Hann skoraði 20 stig, tók 7 fráköst og endaði með hæsta plús/mínusinn í sínu liði, +9 stig.

Tölfræði sem vakti athygli

Þrátt fyrir að Njarðvíkingar tækju fleiri sóknarfráköst í leiknum gátu þeir ekki nýtt þau til að skora körfur. Stjörnumenn skoruðu 11 stig úr sóknarfráköstum sínum á meðan að Njarðvík gat aðeins skorað 2 stig úr sínum.

Hvað gekk illa?

Njarðvík missti öll tök á leiknum í þriðja leikhluta þar sem Stjarnan ýtti þeim út úr öllum sóknarleik sínum. Gestirnir að sunnan gátu síðan ekki stöðvað hraðaupphlaupin hjá Garðbæingum sem líður yfirleitt best á opnum velli á fullum hraða.

Hvað næst?

Það er stutt í næstu leiki hjá liðunum vegna væntanlegs hlés og liðin fá því ekki nema nokkra daga þar til að þau keppa næst.

Stjarnan fær næst Grindavík í heimsókn til sín á mánudaginn kl.19:15 og á sama tíma tekur Njarðvík á móti Völsurum í Ljónagryfjunni.

Nick Tomsick: Finnum alltaf leiðir til að vinna.

Nick Tomsick var að vonum kátur með seiglusigur gegn Njarðvík í kvöld í sveiflukenndum leik.

Njarðvíkingar tóku snemma forystuna í leiknum en þeir gerðu vel í að halda Tomsick í skefjum framan af.

„Þeir gerðu vel í því að klippa mig út úr sókninni en aðrir í liðinu stigu upp á móti,“ sagði Tomsick um fyrsta leikhlutann. Hann skoraði ekki fyrr en á lokasekúndu fyrri hálfleiksins þegar hann setti flautuþrist.

Nick hafði engar sérstakar áhyggjur þó að staðan hafi á tímabili verið erfið og kvaðst hafa treyst sínu liði til að tryggja þennan sigur.

 

„Sama sagan hjá liðinu okkar á tímabilinu, við finnum alltaf leiðir til að vinna.“

Í seinni hálfleik tók Stjarnan öll völd fyrstu tíu mínúturnar og unnu þriðja leikhlutann með 17 stigum, 33-16. Nick þakkaði vörninni gegn Njarðvík og því að Stjarnan keyrði upp hraðann.

„Við förum að þröngva þá í fleiri mistök, pössuðum upp á að þeir næðu ekki sóknarfráköstum og vorum duglegir að keyra í hraðaupphlaupin,“ sagði Tomsick um leikhlutann. „Þegar við náum að hlaupa á lið þá erum við besta liðið í deildinni.

Njarðvíkingar voru þó ekki af baki dottnir og náðu næstum því að stela sigrinum á lokamínútunum með feiknargóðum endaspretti. Chaz Williams var þar í fararbroddi, en hann skoraði m.a. ellefu stig í röð.

„Þeir eru með gott lið og Chaz er flottur leikmaður, það er ekki hægt að halda svona góðum spilara í skefjum í heilan leik,“ sagði Nick um lokakafla leiksins. Njarðvík náði eins stiga forystu með rúma mínútu til leiksloka. Hlynur Bæringsson náði hins vegar að setja mikilvæga körfu í næstu sókn til að taka forystuna á ný og Stjörnumenn unnu leikinn á lokametrunum.

„Við gerðum vel í að standa af okkur áhlaup þeirra í lokin, höfðum góða leiðtoga inn á vellinum til að halda okkur á beinu brautinni og við náðum í þennan sigu,“ sagði Tomsick um seinustu móment leiksins.

Stjarnan hefur núna unnið tólf sigra í röð sem byrjaði einmitt á sigri gegn Njarðvík fyrir þremur mánuðum síðan. Það er ekki úr vegi að spyrja hvort að þeir muni tapa leik það sem eftir er af tímabilinu?

„Við ætlum bara að horfa fram til næsta leiks, ekki lengra í bili,“ segir Nick Tomsick brosandi og heldur inn í búningsklefann eftir góðan sigur í mjög skemmtilegum leik.

Einar Árni: Við vorum bara linir

Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur vildi kenna slökum þriðja leikhluta um tapið hjá sínum mönnum í leiknum. „Við vorum bara linir. Létum þá ýta okkur út úr öllum aðgerðum; vorum veikir á boltann, vorum sömuleiðis veikir frá boltanum og vorum hikandi með boltann þegar við vorum loks að ná að hreyfa boltann,“ sagði hann og var ekkert að skafa utan af því.

„Bara lélegur sóknarleikur sem gefur þeim fullt af hraðaupphlaupskörfum sem við höfðum náð að  takmarka alveg svakalega í fyrri hálfleiknum. Leikurinn var nokkurn veginn farinn þarna í þriðja.“

Þrátt fyrir slakan leikhluta sem tapaðist með sautján stigum komu Njarðvíkingar brjálaðir til baka í lokafjórðungnum og náðu næstum því að stela sigrinum.

„Ég er ánægður með að menn gáfust aldrei upp, reyndum aðeins að brjóta þetta upp með svæðisvörn,“ sagði Einar um lokamínúturnar. Þeir endurheimtu forystuna með öflugri körfu hjá Chaz en Stjarnan kom strax aftur í næstu sókn og komust yfir með þriggja stiga skoti. „Fúlt þegar við erum komnir einu stigi yfir og Hlynur fær svona óþægilega gott skot,“ sagði Einar um galopið skot fyrirliðans fyrir í hægra horninu.

„Ef hann hefði misst þetta skotinu hefðum við fengið aðra sókn og miðað við hvað okkur leið vel sóknarlega hefði þetta mögulega verið annar leikur.“

Einar Árni fannst samt að leikurinn tapaðist ekki þar heldur í byrjun seinni leikhlutans. „Ég er meira að pirra mig á þriðja leikhlutanum en einhverjum mómentum í lok leiksins.“

Njarðvík á heimaleik gegn Val næsta mánudag en Einari Árna var nákvæmlega alveg sama hvort leikið væri í Njarðtaks-gryfjunni eða annars staðar.

„Skítt með það hvort þetta er heimaleikur eða útileikur, bara frábært að það sé stutt í næsta leik. Okkur langar að spila og koma grimmir og læra af því sem við hefðum getað gert betur í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.