Enski boltinn

Gamli Grindvíkingurinn gerði gærdaginn enn betri fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rachel Furness í leik með Liverpool.
Rachel Furness í leik með Liverpool. Getty/Mark Kerton

Karlalið Liverpool var ekki eina lið félagsins sem fagnaði góðum sigri í ensku úrvalsdeildinni í gær því kvennalið félagsins vann líka mikilvægan sigur.

Karlarnir í Liverpool hafa verið á toppnum í allan vetur og eru nú komnir með sextán stiga forskot á næsta lið en það hefur verið mikið basl á kvennaliðinu.

Liverpool konurnar urðu hreinlega að vinna Bristol City á útivelli í gær. Liðið sat í fallsæti fyrir leikinn en 1-0 sigur á Bristol City þýðir að Liverpool konurnar eru þar ekki lengur.



Það var gamli Grindvíkingurinn og nýr leikmaður Liverpool, Rachel Furness, sem tryggði liðinu þessi mikilvægu þrjú stig.

Rachel Furness skoraði sigurmarkið strax á þrettándu mínútu leiksins þegar hún var rétt kona á réttum stað þegar hún fylgdi eftir skoti félaga síns.

Þetta var aðeins annar leikur Rachel Furness með Liverpool síðan að hún kom til liðsins frá Reading.

Liverpool liðið hefur tilfinnanlega vantað mörk því þetta var aðeins það fjórða hjá því á leiktíðinni.

Rachel Furness spilaði með Grindavíkurliðinu sumarið 2010 og var þá með 3 mörk í 12 deildarleikjum og 2 mörk í 2 bikarleikjum. Furness kom til Grindavíkur frá Newcastle en fór þaðan til Sunderland um haustið þar sem hún spilaði næstu sex árin.

Hún er nú orðin 31 árs gömul og hafði verið hjá Reading undanfarin tvö ár þar sem hún spilaði með annars með íslensku landsliðskonunni Rakel Hönnudóttur. Hún hefur skorað 17 mörk í 61 landsleik fyrir Norður-Írland.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×