Erlent

Stærðarinnar haglél olli miklum skemmdum í Ástralíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst tuttugu þúsund heimili og fyrirtæki urðu án rafmagns og rúmlega 1.750 beiðnir um aðstoð bárust til yfirvalda.
Minnst tuttugu þúsund heimili og fyrirtæki urðu án rafmagns og rúmlega 1.750 beiðnir um aðstoð bárust til yfirvalda. Vísir/ESA

Mikið þrumuveður fór yfir suðausturhluta Ástralíu í nótt en því fylgdi haglél sem olli gífurlegum skaða. Minnst tuttugu þúsund heimili og fyrirtæki urðu án rafmagns og hundruð beiðna um aðstoð bárust til yfirvalda. Haglélið sem var á stærð við golfkúlur rústaði bílum og rúðum, tætti tré og olli flóðum. Þá urðu tveir ferðamenn fyrir eldingu.

Skaðinn virðist hafa verið sérstaklega mikill í Canberra, höfuðborg Ástralíu en hann hefur ekki verið tekinn saman.

Samkvæmt frétt ABC þurftu íbúar að leita skjóls þegar haglélið hófst minnst tveir slösuðust þó í Canberra. Fuglar virðast þó hafa orðið sérstaklega illa úti og hafa fregnir borist af því að íbúar hafi farið með fjölda þeirra, sem þau fundu úti, til dýralækna.

Svæðið sem um ræðir hefur orðið illa úti vegna gróðurelda á undanförnum vikum og hefur óveðrið hjálpað til við slökkvistörf. Vindurinn olli þó miklu moldroki í gær, áður en haglélið skall á.

Samkvæmt frétt CNN stefnir óveðrið nú að Sydney og er talið að þar geti það einnig ollið miklum skaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×