Enski boltinn

Alisson jafnaði við Gylfa í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alisson lagði upp mark Mohamed Salah og fagnaði því síðan með því að hlaupa upp allan völlinn til að fagna.
Alisson lagði upp mark Mohamed Salah og fagnaði því síðan með því að hlaupa upp allan völlinn til að fagna. Getty/Michael Regan

Alisson Becker markvörður Liverpool, lagði upp seinna mark Liverpool liðsins og er þar með búinn að jafna við margar stórstjörnur á stoðsendingalistanum á þessu tímabili.Alisson fékk þarna skráða sína fyrstu stoðsendingu á leiktíðinni og jafnaði þar við menn eins og Raheem Sterling, Mesut Özil og Gylfa Þór Sigurðsson.

Kevin De Bruyne er með yfirburðarforystu á stoðsendingalistanum því hann hefur gefið fjórtán slíkar eða fimm fleiri en næsti maður.Liverpool maðurinn Trent Alexander-Arnold lagði upp fyrra mark Liverpool fyrir Virgil van Dijk og bakvörðurinn ungi hefur þar með gefið níu stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Það fylgir reyndar sögunni að þó að Gylfi Þór Sigurðsson sé aðeins skráður með eina stoðsendingu þá kemur það til vegna mjög strangra reglna í skráningunni.Fleiri sendingar Gylfa á tímabilinu hafa þannig orðið að marki án þess að vera stoðsendingar þar sem þær hafa haft viðkomu í varnarmanni. Sendingin þarf aðeins að snerta varnarmann til að ekki verði skráð stoðsending og það hefur bitnað á okkar manni í að minnsta kosti tveimur mörkum.Gylfi hefur samt gefið mun minna að stoðsendingum en tímabilin á undan og er líka að skora mun minna. Þetta hefur því heilt yfir verið vonbrigðatímabil fyrir íslenska landsliðsmanninn.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.