Skipin fimm, sem hófu loðnuleitina í síðustu viku, eru nú ýmist öll komin í land eða rétt ókomin. Einnig var fjallað um leitina í fréttum Stöðvar 2.
„Það er ekki vinnuveður eins og er. Við erum í 24-25 metrum á sekúndu á leið í land,“ sagði Birkir Bárðarson, fiskifræðingur og leiðangursstjóri, um borð í Árna Friðrikssyni nú fyrir hádegi en hafrannsóknaskipið var þá statt úti fyrir mynni Eyjafjarðar.
„Við bíðum af okkur þennan hvell. Förum inn á Akureyri og þar þurfum við að láta kíkja á hliðarskrúfu í leiðinni,“ sagði Birkir.
-En hvað hafa þeir séð af loðnu til þessa?
„Í stuttu máli mjög lítið. Þetta hefur verið hrafl eða smátorfur á stangli en við höfum ekki séð neitt verulegt magn. Það segir okkur að loðna er ekki gengin austur fyrir Kolbeinseyjarhrygg.“

Veiðiskipin Ásgrímur Halldórsson SF og Bjarni Ólafsson AK sneru til hafna á Hornafirði og Norðfirði um helgina eftir að hafa lokið yfirferð um Austfjarðamið og er þeirra hlutverki lokið í bili. Fiskiskipin Hákon EA og Polar Amaroq komu inn til Akureyrar í morgun en þau munu síðan halda áfram leitinni ásamt Árna Friðrikssyni.
Fylgjast má með leitinni á rauntíma á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar.
„Við förum út aftur um leið og þetta gengur yfir. Mér sýnist veðurspáin vera þannig að það geti orðið upp úr hádegi á morgun,“ sagði Birkir.
„Við förum næst vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg og höldum síðan vestur með landgrunnskantinum, til Vestfjarða. Ætli við klárum þetta alveg niður í Víkurál.“