Viðskipti erlent

Kína og Bandaríkin semja um að slaka á viðskiptastríði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sáttmálinn góði.
Sáttmálinn góði. Vísir/AP

Bandaríkin og Kína hafa skrifað undir samkomulag sem ætlað er að draga úr viðskiptastríði sem ríkt hefur á milli ríkjanna að undanförnu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að samkomulagið muni koma sér afar vel fyrir bandarískan efnahag. Leiðtogar í Kína segja samkomulagið gott fyrir alla.

Samkomulagið felur í sér að Kína hefur lofað því að auka innflutning á vörum frá Bandaríkjunum um 200 milljarða dollara frá því sem var árið 2017, um 25 þúsund milljarða. Þá heitir Kína því að herða hugverkalöggjöf ríkisins.

Bandaríkin munu aftur á móti helminga tolla sem lagðir hafa verið á kínverskar vörur. Frekari viðræður munu fara fram í von um að viðskiptadeilum ríkjanna tveggja ljúki.

Viðskiptastríðið hefur staðið yfir frá árinu 2018 en ríkin hafa skipst á því að leggja á tolla á ýmsar vörur sem fluttar eru inn til ríkjanna.

Hefur það dregið úr hagvexti um allan heim, mest í ríkjunum tveimur, en einnig á Íslandi.

 

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×