Körfubolti

Hlynur, Logi og Helgi Már náðu sama áfanga og Carter

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meðlimir fjögurra áratuga klúbbsins á Íslandi.
Meðlimir fjögurra áratuga klúbbsins á Íslandi. vísir/bára

Hlynur Bæringsson, Logi Gunnarsson og Helgi Már Magnússon náðu í gær þeim merka áfanga að spila leik á Íslandi á fjórum mismunandi áratugum. Allir héldu þeir upp á áfangann með sigri.Þeir fylgdu þar með í fótspor Vince Carter varð um helgina fyrsti leikmaðurinn í NBA-deildinni til að spila leik á fjórum mismunandi áratugum.Hlynur, Logi og Helgi spiluðu allir sinn fyrsta leik á Íslandi undir lok síðasta áratugar 20. aldarinnar. Logi er fæddur 1981 og þeir Hlynur og Helgi ári seinna.Hlynur lék sína fyrstu leiki með Skallagrími tímabilið 1997-98. Sama tímabil lék Logi sína fyrstu leiki með Njarðvík og varð Íslandsmeistari með liðinu.Helgi var á skýrslu í nokkrum leikjum með KR tímabilið 1998-99 en lék sínar fyrstu mínútur tímabilið 1999-2000. KR varð Íslandsmeistari vorið 2000 en Helgi var ekki á skýrslu í neinum leik í úrslitakeppninni.Hlynur lék með Skallagrími til 2002 þegar hann fór til Snæfells. Hann lék í Hólminum til 2010, fyrir utan eitt tímabil þegar hann í herbúðum Aris Leeuwarden í Hollandi.Eftir að Snæfell varð tvöfaldur meistari 2010 fór Hlynur til Sundsvall Dragons í Svíþjóð. Hann lék þar í sex ár, og varð einu sinni sænskur meistari, áður en hann fór til Stjörnunnar 2016.Logi lék með Njarðvík til 2002. Eftir sex ár í atvinnumennsku sneri hann heim til Njarðvíkur tímabilið 2008-09. Logi lék svo erlendis til 2013 þegar hann kom aftur til Njarðvíkur þar sem hann hefur leikið síðan.Helgi lék með Catawba háskólanum í Bandaríkjunum á árunum 2002-06 og var svo eitt ár í herbúðum BC Boncourt í Sviss. Hann lék með KR 2007-09 og varð Íslandsmeistari með liðinu 2009. Næstu þrjú árin lék hann svo í Svíþjóð áður en hann sneri heim í KR 2012. Hann hefur unnið fjölmarga titla með Vesturbæjarliðinu síðan þá.Hlynur skoraði tólf stig og tók sjö fráköst þegar Stjarnan sigraði Þór Þ., 84-70, í gær. Logi skoraði þrjú stig í öruggum sigri Njarðvíkur á ÍR, 88-64, og Helgi var með 14 stig, níu fráköst og fjórar stoðsendingar þegar KR vann Grindavík, 91-94, eftir framlengingu.Jakob Örn Sigurðarson nær sama áfanga og þeir Hlynur, Logi og Helgi þegar hann leikur sinn fyrsta leik á þessu ári. Jakob missti af leiknum gegn Grindavík í gær vegna meiðsla. Hann lék sinn fyrsta leik með KR tímabilið 1998-99.Jakob fór í háskóla í Bandaríkjunum eftir að KR varð Íslandsmeistari 2000 og kom ekki aftur fyrr en tímabilið 2008-09 þegar hann varð aftur Íslandsmeistari. Jakob sneri svo aftur til KR fyrir þetta tímabil.Jón Arnór Stefánsson var nálægt því að ná sama áfanga og Hlynur, Logi og Helgi að spila á fjórum áratugum. Hann lék sinn fyrsta leik fyrir KR í úrslitakeppninni 28. mars 2000. Hann lék með KR til 2002 og kom svo heim tímabilið 2008-09 líkt og Jakob.Jón Arnór kom svo aftur til KR 2016 og hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með liðinu síðan þá. Jón Arnór, sem hefur glímt við meiðsli, var á skýrslu gegn Grindavík í gær en kom ekkert við sögu.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.