Fótbolti

Romelu Lukaku þegar kominn með fleiri mörk en á öllu síðasta tímabili með Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Romelu Lukaku fagnar öðru marka sinna í gær.
Romelu Lukaku fagnar öðru marka sinna í gær. Getty/Francesco Pecoraro

Romelu Lukaku skoraði bæði mörk Internazionale í gær þegar liðið vann 2-1 útisigur á Napoli og komst aftur á topp ítölsku deildarinnar.

Lukaku er þar með búinn að skora fjórtán mörk í Seríu A á þessu tímabil og það í aðeins átján leikjum.

Þetta þýðir að belginn er búinn að skora fleiri mörk á þessu tímabili en á öllu síðasta tímabili með Manchester United.



Lukaku skoraði 12 mörk í 32 deildarleikjum með United 2018-19 en er kominn með tveimur fleiri í vetur þrátt fyrir að hafa spilað fjórtán færri leiki. Hann skoraði 16 mörk í 34 deildarleikjum á sínu fyrsta tímabilið með United eftir að hafa skorað 25 deildarmörk með Everton tímabilið 2016-17.

Fyrra markið skoraði Belginn eftir hlaup frá eigin vallarhelmingi en það seinna með skoti í gegnum klof markvarðarins Alex Meret.

Inter keypti Romelu Lukaku á 74 milljónir punda frá Manchester United í ágúst. Nú er það aðeins Ciro Immobile hjá Lazio (19 mörk) sem hefur skoraði fleiri mörk í ítölsku deildinni á þessari leiktíð en Lukaku.



Internazionale er með 45 stig á toppnum eins og Juventus. Internazionale situr í toppsætinu á betri markatölu ekki síst vegna markanna frá hinum 26 ára gamla belgíska landsliðsframherja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×