Viðskipti innlent

Sautján hæða hótel rís í miðbænum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Arkítektinn Tony Kettle sótti innblástur í jarðfræði Íslands.
Arkítektinn Tony Kettle sótti innblástur í jarðfræði Íslands.

Hótelkeðjan Radisson Hotel Group reisir nú hótel undir merkjum Radisson RED á horni Skúlagötu og Vitastígs í Reykjavík. Teikningar af fyrirhugaðri hótelbyggingunni litu fyrst dagsins ljós í morgun en arkítektinn kveðst sækja innblástur í sögu íslenskrar byggingarlistar og náttúru landsins.

Áætlað er að Radisson RED-hótelið opni í miðbænum árið 2021, hið fyrsta á Norðurlöndunum. Gert er ráð fyrir 203 herbergjum á sautján hæðum, með göngustíg í gegnum hótelið, veitingastað á jarðhæð með torgi og útsýnisverönd á þaki.

Hótelið séð aftan frá.Radisson

Haft er eftir Tony Kettle, arkítektinn sem teiknar hótelið, í tilkynningu að hugmyndin með hönnuninni sé að skapa „einstaka byggingu“ sem komi til með að tengja saman Reykjavík og náttúru Íslands. Hann sæki innblástur í íslenska byggingarlist og jarðfræði Íslands; basalt og hraunrennsli, rautt og svart.

Radisson Hotel Group er ein stærsta hótelkeðja heims. Yfir 1400 hótel eru rekin og í burðarliðnum undir merkjum keðjunnar. Greint var frá því árið 2018 að til stæði að opna Radisson RED-hótel á Íslandi en hér eru fyrir fjögur Radisson-hótel, þrjú í Reykjavík og eitt í Reykjanesbæ.

Veitingastaður verður á jarðhæðinni.Radisson
Útsýnið yfir borgina verður líklega með ágætum.Radisson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×