Handbolti

HSÍ heldur sínu striki og ætlar að hefja handboltatímabilið 10. september

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr leik í Olís-deild kvenna á síðasta tímabili.
Úr leik í Olís-deild kvenna á síðasta tímabili. vísir/bára

Flautað verður til leiks á Íslandsmótinu í handbolta 10. september eins og áætlað var. Þann 10. september fara fimm leikir fram í 1. umferð Olís-deildar karla. Tveimur dögum síðar hefst svo keppni í Olís-deild kvenna.

„Við ætlum að byrja 10. september samkvæmt óbreyttu plani. Það er byggt á því að ástandið versni ekki og þær reglur sem eru núna verði enn í gildi þá. En það er engan bilbug á okkur að finna og við ætlum að hefja mótið á réttum tíma,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2.

Handknattleikssambandið ætlar að halda sig við upphaflega áætlun og takast svo á við raskanir á mótinu þegar, eða ef, þær koma upp.

„Við höfum bara haldið óbreyttu plani. Það er ekkert annað hægt. Við vitum í raun ekki hvernig staðan verður eftir mánuð eða tvo. Við miðum við þau plön sem við erum með í dag en erum með aðrar útfærslur ef ske kynni að við lendum í seinkunum,“ sagði Róbert. 

En hvað gerist ef seinka þarf mótinu vegna kórónuveirufaraldursins?

„Þá munum við spila þéttar í byrjun. Við höfum sveigjanleika, bæði karla- og kvennamegin, og við erum ekkert hræddir við að þurfa að bregðast við. Við megum vera við því búnir að þriðja bylgjan komi yfir okkur. Við gætum gert hlé á mótinu síðar í vetur,“ sagði Róbert.

„En við tökum bara á því þegar þar að kemur. Eins og staðan er núna sjáum við ekki fram á neitt annað en að geta byrjað á réttum tíma.“

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Sportpakkinn - HSÍ heldur sínu striki


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.