Viðskipti innlent

Rafskútuleigan Hopp í útrás til Spánar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rafskútur Hopps eru komnar til Spánar.
Rafskútur Hopps eru komnar til Spánar. Mynd/Hopp

Rafskútuleigan Hopp opnaði í dag hlaupahjólaleigu á Spáni í samstarfi við spænska félagið GO2PLACE Sl. Um svokallað sérleyfi er að ræða en Hopp leitar nú að fleiri samstarfsaðilum sem hafa áhuga á samstarfi erlendis.

Íslendingar ættu að kannast við Rafskútuleiguna Hopp sem býður vegfarendum að leigja sér rafmagnsdrifin hlaupahjól eða skútur líkt og þær eru kallaðar til þess að ferðast um, en sprenging hefur orðið í vinsældum rafmagnshlaupahjóla undanfarna mánuði.

Hopp virkar þannig að notendur geta leigt sér rafskútu í ákveðinn tíma og sérstöku símaforriti er hægt að sjá staðsetningu þeirra skúta sem í boði eru. Notendur geta svo gripið næstu lausa skútu og haldið af stað.

Í tilkynningu frá Hopp á Íslandi segir að útibúið á Spáni sé á Orihuela Costa þar sem í fyrstu verða í boði 70 rafskútur. Opnunin er sem fyrr segir í samstarfi við GO2PLACE S.L sem fær sérleyfi á vörumerki og tækni Hopp í kringum leiguna. Félagið er að fullu í eigu Íslendinga.

Vissara að hafa sóttvarnirnar á hreinu.Mynd/Hopp

Þá leitar Hopp jafnframt að samstarfsaðilum sem hafa áhuga á því að opna rekstur erlendis í gegnum sérleyfi frá Hopp, en þeir þurfi að hafa fjárhagslegt bolmagn fyrir hlaupahjólum og forsendur fyrir að reka sérleyfi erlendis.

Í samtali við Vísi segir Eyþór Máni Steinarsson, rekstrarstjóri Hopp, að markmiðið fyrirtækisins sé ekki að herja á stórborgir heimsins, líkt og stærstu rafskútuleigur heimsins geri.

„Almennt er þetta þjónusta sem er bara aðgengileg í stórborgum. Við viljum herja á minni borgir, svæði þar sem búa á milli 50 þúsund og 500 þúsund íbúar,“ segir Eyþór Máni. Þannig sé markmiðið að bjóða einstaklingum upp á umhverfisvænni og handhægari máta til þess að komast leiðar sinnar á svæðinu, líkt og það er orðað í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×