Viðskipti innlent

Loka álverinu í Straumsvík ef Landsvirkjun breytir ekki hegðun sinni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Álver Rio Tinto í Straumsvík.
Álver Rio Tinto í Straumsvík. Vísir/vilhelm

Rio Tinto hefur lagt fram formlega kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna þess sem félagið telur vera misnotkun Landsvirkjunar „á yfirburðastöðu fyrirtækisins“ gagnvart álverinu í Straumsvík.  Rio Tinto og Landsvirkjun hafa átt í viðræðum um raforkusamning fyrirtækjanna, sem Rio Tinto segir óhagstæðan. Takist ekki að endursemja verði unnið að lokun álversins í Straumsvík.

Ásakanir gengu á milli Landsvirkjunar og Rio Tinto í upphafi árs, en það síðarnefnda segir álverið í Straumsvík greiða meira fyrir orku sína en aðrir álframleiðendur á Íslandi sem grafi undan samkeppnisstöðu fyrirtækisins.

Forstjóri Landsvirkjunar sakaði Rio Tinto um að beita óeðlilegri samningatækni og hótunum í viðræðum fyrirtækjanna um raforkuverð.  Landsvirkjun óskaði formlega eftir því að trúnaði um raforkusamninginn yrði aflétt og Rio Tinto fagnaði því. Mikilvægt væri að gagnsæi ríkti um þessi mál.

Álframleiðandinn tilkynnti þann 12. febrúar síðastliðinn að fyrirtækið hefði hafið endurskoðun á starfsemi álversins til að meta rekstrarhæfi þess til framtíðar. Allt væri undir í þeim efnum; þar á meðal frekari framleiðsluminnkun, en þá hafði hún þegar við minnkuð í 85 prósent framleiðslugetu, sem og möguleg lokun álversins í Straumsvík.

Fyrrnefnd kvörtun er lokahnykkurinn í þessari endurskoðun að sögn Rio Tinto. „Láti Landsvirkjun ekki af skaðlegri háttsemi sinni, hefur ISAL ekki annan kost en að íhuga að segja upp orkusamningi sínum við Landsvirkjun og virkja áætlun um lokun álversins,“ segir í orðsendingu Rio Tinto vegna kvörtunarinnar.

Rio Tinto fer þannig fram á það við Samkeppniseftirlitið að það taki á „samkeppnishamlandi háttsemi Landsvirkjunar með mismunandi verðlagningu og langtímaorkusamningum,“ svo að álver ISAL og önnur íslensk framleiðsla og fyrirtæki geti keppt á alþjóðavettvangi.

„Að mati Rio Tinto fela mismunandi verð í raforkusamningum Landsvirkjunar í sér mismunun gagnvart viðskiptavinum, fyrirtækið misnoti þannig markaðsráðandi stöðu sína sem sé óréttlætanleg háttsemi. Samningar Landsvirkjunar binda viðskiptavini til langs tíma og hindra önnur orkufyrirtæki annað hvort í að koma inn á íslenskan markað eða auka starfsemi.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×