Skoðun

Er lífs­hættu­legt að búa á lands­byggðinni?

Berglind Harpa Svavarsdóttir skrifar

Nýlega birtist grein í Morgunblaðinu sem bar heitið „Er Reykjavík höfuðborg allra landsmanna?". Þar leggjum við sjálfstæðismenn á landsbyggðinni áherslu á mikilvægi staðsetningar Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri sem miðstöð sjúkraflugs í landinu. Þar er um brýnt öryggismál að ræða því tíminn skiptir öllu máli í bráðaveikindum hvort sem um er að ræða tíminn eftir lendingu og að sérhæfðu bráðaþjónustunni eða fyrstu viðbrögð úti á landsbyggðinni við bráðaveikindum.Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu eigum við öll að hafa jafnan aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma hvar sem við búum á landinu.

Lang víðfeðmasta sveitarfélag landsins ekki tækjum búið til fullnaðarbráðagreiningar

Nú líður senn að kosningum á Austurlandi en 19. september nk. verða fyrstu sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar sem verður lang víðfeðmasta sveitarfélag landssins. Að tækjakostur til bráðagreiningar sé ekki til staðar til að fullgreina bráðaástand sjúklings við sjúkraflugvöllinn á Egilsstöðum í miðlægu nýju sveitarfélagi er óásættanlegt. Hér skiptir tíminn öllu máli. Við landsbyggðarfólk búum nógu langt frá sérhæfðri bráðaþjónustu þó ekki sé illa farið með tímann sem sker úr um líf okkar eða hvort við náum almennt fyrri heilsu.

Í dag þarf að keyra 68 km leið á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupsstað í fullnaðarbráðagreiningu og svo aftur upp í Egilsstaði í sjúkraflug. Ljóst er að við verðum að eiga öflugt Fjórðungssjúkrahús sem er vel tækjum búið, en það er einnig lífsnauðsynlegt að vera vel tækjum búin til fullnaðarbráðagreiningar við sjúkraflugvöllinn á Egilsstöðum til að losna við langt ferðalag til bráðagreiningar sem getur lagt líf okkar og heilsu í hættu.

Sameiginleg rödd SSA í að stórbæta tækjakost í bráðatilvikum

Samkvæmt ályktunum haustþings SSA á Borgarfirði eystri þann 12.október 2019, lögðu öll sveitarfélög á Austurlandi fram sameiginlega bókun;

Lögð verði sérstök áhersla á eflingu frumgreininga í bráðatilvikum með kaupum á nauðsynlegum greiningartækjum á heilsugæslum staðsettum í nánd við sjúkraflugvelli.

Sjúkraflugvellirnir eru á Egilsstöðum og í Neskaupsstað. Austurland er mjög víðfemt. Til að komast á milli staða þarf að aka í gegnum göng, yfir heiðar og fyrir skriður í allskonar veðrum. Því skiptir það miklu máli að hægt sé að fullnaðarbráðagreina við báða sjúkraflugvellina og koma sjúklingi þannig sem fyrst í viðeigandi læknismeðferð. Hver mínúta skiptir máli. Mikið vantar upp á að greiningartæki séu til staðar á Egilsstöðum til fullnaðargreininga í bráðatilvikum.

Sjálfstæðisflokkurinn í sameinuðu sveitarfélagi leggur því áherslu á að lagt verði fjármagn í kaup á sneiðmyndatæki og öðrum nauðsynlegum tækjakosti til fullnaðarbráðagreiningar á heilsugæslunni á Egilsstöðum. Þannig styttum við viðbragðstímann í bráðaveikindum fólks á Austurlandi, flýtum því að rétt meðferð geti hafist og aukum líkur á að fólk nái fyrri heilsu á ný.

Höfundur er bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði og skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðismanna í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×