Viðskipti innlent

Geta sótt um lán til að endur­greiða ferðir í næstu viku

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Alþingi hefur samþykkt stofnun Ferðaábyrgðasjóðs í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Ferðaskrifstofur munu geta sótt um lán hjá sjóðnum í byrjun næstu viku og hafist handa við að greiða endurgreiðslukröfur á hendur sér vegna pakkaferða sem ekki voru farnar vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Sjóðurinn var settur á fót þar sem ekki allar ferðaskrifstofur hér á landi hafa getað staðið undir lögboðnum endurgreiðslum á pakkaferðum sem hefur verið aflýst eða þær afbókaðar vegna heimsfaraldursins.

Sjóðnum er ætlað að veita umræddum ferðaskrifstofum lán til þess að standa skil á endurgreiðslum til neytenda og tryggja rétt þeirra, auk þess að aðstoða ferðaskrifstofur sem standa höllum fæti vegna erfiðs rekstrarumhverfis um þessar mundir. Samkvæmt tilkynningu Stjórnarráðsins hefur EFTA yfirfarið og samþykkt ráðstöfunina.

„Ferðaskrifstofur munu geta sótt um lán hjá sjóðnum sem nemur ógreiddum endurgreiðslukröfum. Lánunum skal eingöngu ráðstafað til að endurgreiða ferðamönnum lögboðnar endurgreiðslukröfur á hendur ferðaskrifstofum,“ segir í tilkynningunni.

Ferðamálastofa mun taka við og afgreiða lánsumsóknir fyrir hönd sjóðsins og hefur eftirlit með framkvæmd laganna um hann.

Þá hefur ferðamálaráðherra hafið undirbúning þess að leggja af núverandi tryggingakerfi með því að setja á stofn tryggingasjóð sem ætlað er að sjá um að tryggja neytendum endurgreiðslur komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu, að því er fram kemur í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×