Körfubolti

LeBron James ætlar ekki að vera með skilaboð aftan á treyjunni

Ísak Hallmundarson skrifar
LeBron er þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir.
LeBron er þekktur fyrir að fara sínar eigin leiðir. getty/Harry How

LeBron James þarf vart að kynna enda einn besti körfuboltamaður okkar samtíma og af flestum talinn einn af þeim bestu allra tíma. Hann segist ekki ætla að vera með nein skilaboð aftan á treyju sinni þegar keppni í NBA hefst aftur 30. júlí.

Á dögunum var greint frá því að leikmenn deildarinnar fengju að velja sér skilaboð aftan á treyju sína til stuðnings við réttindabaráttu þeldökkra í Bandaríkjunum. Svipað og við sáum þegar enska úrvalsdeildin hófst aftur í júní, en þá var „Black Lives Matter“ aftan á treyju leikmanna í stað eftirnafns í fyrstu tveimur umferðunum. 

Í NBA fá leikmenn að velja sér skilaboð eftir ákveðnum lista, þar er hægt að velja skilaboð eins og „Equality“, „Freedom“, „Vote“, „Power to the People“ og að sjálfsögðu „Black Lives Matter“.

LeBron James, ein stærsta stjarna deildarinnar, ætlar hinsvegar ekki að bera slík skilaboð.

„Ég þarf ekki að hafa einhver skilaboð aftan á treyjunni minni til að fólk viti hvað ég stend fyrir,“ segir James.

„Þetta er engin vanþóknun á listanum sem við fengum. Ég mun styðja alla sem ákveða að setja eitthvað aftan á treyjuna. Þetta er bara eitthvað sem fer ekki saman við mína baráttu og mín gildi.“

„Ég hefði viljað hafi eitthvað að segja um hvað ég gæti valið aftan á treyjuna, ég var með ýmislegt í huga en ég var ekki hluti af því ferli, sem er allt í góðu,“ sagði James en leikmenn þurftu að velja skilaboð af samþykktum lista NBA-deildarinnar.

Það er þó ekki skylda að bera slík skilaboð og ætlar LeBron að vera með nafnið sitt á sinni treyju, líkt og vanalega. 

NBA-deildin fer aftur af stað þann 30. júlí í Disneylandi í Orlando.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×