Formúla 1

McLaren íhugar að selja hluta af Formúluliði sínu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
McLaren munu skipta út Renault vélinni og fara yfir í Mercedes árið 2021, sem ætti að auka samkeppnishæfni liðsins.
McLaren munu skipta út Renault vélinni og fara yfir í Mercedes árið 2021, sem ætti að auka samkeppnishæfni liðsins. Getty

McLaren liðið ætlar að selja minnihluta í Formúl 1 liði sínu til að tryggja framtíðar stöðugleika. McLaren hefur komið illa út úr kórónaveirufaraldrinum.

1200 manns misstu vinnuna hjá McLaren í maí, sem er um fjórðungur þeirra sem unnu hjá fyrirtækinu. Það er hluti af niðurskurðaraðgerðum sem fyrirtækið hefur gripið til.

Ágreiningur er uppi á milli hluthafa og lánardrottna Mclaren um hver framtíðarstefna fyrirtækisins á að vera, samkvæmt frétt Autocar.co.uk um málið.

Lausn náðist að hluta til í málið í síðustu viku þegar McLaren tók að láni 150 milljónir punda, rétt rúma 26 milljarða króna, hjá Ríkisbanka Bahrein á afar hagstæðum vaxtakjörum. Heimildir Autocar herma að nú hafi hluthafar gefið grænt ljós á að skoða frekari leiðir til tekjuöflunar, þar sem markmiðið er að tryggja stöðugleika til næstu fimm ára.

Talsmaður McLaren sagði að „til skoðunar er að fjölga fjárfestum í kappaksturshluta fyrirtækisins.“ Kappakturshlutinn felur í sér Formúlu 1 lið McLaren. Liðið hefur náð á verðlaunapall í tveimur af síðustu þremur keppnum í Formúlu 1, síðast um liðna helgi í Austurríki.

Fyrir tveimur árum keypti Michael Latifi, faðir Williams ökumannsins Nicloas Latifi í Formúlu 1 10% hlut í McLaren samsteypunni sem þá var metinn á 200 milljónir punda. Því má ætla að heildarverðmæti samsteypunnar hafi verið um 2 milljarðar punda eða um 347,6 milljarðar króna.

Verðmæti samsteypunnar og þá sérstaklega kappaksturshluta hennar er þó líklegt til að hækka, árangurinn á brautinni hefur verið meiri. Eins er væntanlegt kostnaðarþak í Formúlu 1 líklegt til að leiða til enn meiri samkeppnishæfni liðsins.

Engin tímalína hefur verið sett upp en heimildir herma að samtal sé þegar hafið og komið vel á veg. Þá herma heimildir að fleiri en einn mögulegur kaupandi sé í sigtinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×