Viðskipti innlent

ESB segir MS ekki mega kalla vörur sínar „feta“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Grískur fetaostur. Mjólkursamsalan má ekki nota heitið „feta“ um vörur sínar.
Grískur fetaostur. Mjólkursamsalan má ekki nota heitið „feta“ um vörur sínar. ORESTIS PANAGIOTOU/EPA

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur farið fram á það við íslensk stjórnvöld að þau sjái til þess að MS noti ekki heitið „feta“ í framleiðslu sinni á osti. Osturinn sé ekki fetaostur nema framleiddur í Grikklandi, og þá eftir ákveðinni aðferð. RÚV greinir frá þessu.

Í apríl lagði Evrópuþingmaðurinn Emmanouil Fragkos fram fyrirspurn um framleiðslu MS á fetaosti. Benti hann á að fetaostur væri framleiddur úr mjólk áa og geita í Grikklandi, og þá með sérstökum aðferðum. Séu þessi skilyrði ekki uppfyllt teljist osturinn ekki vera feta. Þannig sé ekki hægt að kalla osta framleidda utan Grikklands fetaosta.

Í fyrirspurn sinni velti Fragkos því upp hvort notkun MS á „feta“ væri lögleg. Framkvæmdastjórn ESB svaraði því til að Ísland og Evrópusambandið hefðu gert samkomulag í maí 2016 um landfræðilega vernd matvara. Taldi framkvæmdastjórnin að notkun á „feta“ félli undir samkomulagið og MS því óheimilt að nota heitið.

Framkvæmdastjórnin hefur þegar óskað eftir því að íslensk stjórnvöld staðfesti að MS hafi notað „feta“-heitið á vörur sínar, og grípi til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir áframhaldandi notkun heitisins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×