Viðskipti innlent

Bjóða enska boltann á þúsund krónur í kjöl­far úr­skurðar Sam­keppnis­eftir­litsins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Sýn kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna verðlagningar símans vorið 2019.
Sýn kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vegna verðlagningar símans vorið 2019. Vísir/Samsett

Vodafone hefur brugðist við úrskurði Samkeppniseftirlitsins, þar sem Síminn var sektaður um 500 milljónir króna fyrir brot gegn skilyrði í sáttum við eftirlitið, með því að bjóða viðskiptavinum sínum upp á Enska boltann á 1000 krónur á mánuði út yfirstandandi keppnistímabil.

Samkeppniseftirlitið taldi að með því að bjóða Heimilispakkann (með margvíslegri fjarskiptaþjónustu) og Símann Sport/Enska boltann (línulegt áskriftarsjónvarp) með miklum verðmun og ólíkum viðskiptakjörum, eftir því hvort umrædd þjónusta og þá sérstaklega Enski boltinn var seld saman eða sitt í hvoru lagi, hafi Síminn brotið gegn áðurnefndri 3. gr. sáttar Samkeppniseftirlitsins frá 15. apríl 2015.“

Síminn bauð þannig Enska boltann á mun betri kjörum fyrir þá sem þegar voru í viðskiptum við fyrirtækið. Sýn kvartaði til Samkeppniseftirlitsins vorið 2019. Í kvörtuninni var því haldið fram að verðlagning, kynning og skilmálar á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu Símans, einkum enska boltanum, hafi falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur.

Í tilkynningu frá Vodafone, sem send var út í morgun, kemur fram að nú verði Enski boltinn einnig á 1000 krónur fyrir viðskiptavini fyrirtækisins. Eins hefur verið óskað eftir því að Síminn breyti verðlagningu sinni þannig að hægt verði að bjóða neytendum Enska boltann á 1000 krónur á mánuði á næsta keppnistímabili.

„Það skal tekið fram að verð Símans á þjónustunni sem hluti af eigin vöruframboði er mun lægra en núgildandi heildsöluverð til Vodafone. Hefur Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að þetta leggi stein í götu keppinauta Símans. Af þeim sökum hefur Vodafone óskað eftir því að Síminn breyti heildsöluverðlagningu sinni þannig að unnt verði að bjóða neytendum Enska boltann á kr. 1000 á mánuði einnig á næsta keppnistímabili án þess að umtalsvert tap hljótist af,“ segir í tilkynningunni.

Vert er að taka fram að bæði Vodafone og Vísir eru í eigu sama fyrirtækis, Sýnar hf.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×