Viðskipti innlent

Vonast til að draga úr umferð með heimavinnu starfsfólks

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi.
Höfuðstöðvar Íslandsbanka í Kópavogi. vísir/vihelm

Mikill áhugi er sagður meðal starfsfólks Íslandsbanka að vinna heima hluta úr viku, eftir að fjarvinna var sett á oddinn í kórónuveirufaraldrinum. Það muni ekki aðeins draga úr kolefnisútblæstri bankans með minni umferð heldur jafnframt hafa í för með sér jákvæð rekstraráhrif.

sögn Íslandsbanka eru þegar hafnar tilraunir á því að láta fólk vinna heima hjá sér einn dag í viku. Stefnan er síðan sett á að innleiða heimavinnu á öllum sviðum bankans ef tilraunaverkefnið gefur góða raun.

Bankinn segir tilraunaverkefni sitt byggja á niðurstöðu könnunar sem framkvæmd var meðal starfsfólks eftir að meirihluta þess var gert að vinna heima frá sér vegna kórónuveirunnar. „Niðurstöðurnar sýna fram á mikinn áhuga starfsfólks að halda áfram að vinna heima hluta úr viku, félagsleg tengsl hafa haldist ágæt og afkastageta aukist í mörgum tilvikum,“ segir í orðsendingu Íslandsbanka um málið.

Ekki aðeins muni heimavinna fólks minnka kolefnisfótspor bankans, því ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega þar þungt, heldur áætlar bankinn að heimavinnan muni einnig hafa jákvæð rekstraráhrif í för með sér. Til þess að draga úr útblæstrinum enn frekar segist Íslandsbanki hafa keypt fjölmörg rafhlaupahjól fyrir starfsfólk sitt, auk þess sem það búi að rafbílaflota og öðrum grænum úrræðum.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, lætur hafa eftir sér að með aukinni heimavinnu taki bankinn skref í að bæta vinnuumhverfið, auka starfsánægju og draga úr umferð og mengun.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×