Viðskipti innlent

Gleymdist að auglýsa 15 milljarða gjaldþrot

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Félagið var eitt dótturfélaga Baugs Group. Jón Ásgeir Jóhannesson var aðaleigandi og forstjóri Baugs.
Félagið var eitt dótturfélaga Baugs Group. Jón Ásgeir Jóhannesson var aðaleigandi og forstjóri Baugs. Vísir/vilhelm

Þó svo að skiptum í þrotabúi félagsins F-Capital ehf. hafi lokið fyrir rúmum 8 árum voru skiptalokin fyrst auglýst í Lögbirtingablaðinu í dag. Gjaldþrotið nam rúmlega 15 milljörðum króna og ekki fékkst króna upp í kröfurnar.

F-Capital var dótturfélag Baugs Group til heimilis að Túngötu 6 í Reykjavík, eins og mörg önnur félög Baugs. Áætlað var árið 2010, ári eftir gjaldþrot Baugs, að heildarkröfur í þrotabú félaga sem skráð voru í Túngötu 6 næmu um 550 milljörðum króna.

Félagið F-Capital var tekið til gjaldþrotaskipta um miðjan desember 2010, en þess verður helst minnst fyrir að hafa haldið á þriðjungs eignarhlut í Mosaic Fashions sem eins og nafnið gefur til kynna hélt utan um tískutengda eignarhluti. Undir Mosaic Fashions voru þannig reknar tískuvöruverslanir á borð við Karen Millen, Warehouse, Oasis, Anoushka G og Coast.

Skiptum í F-Capital var lokið rúmu ári frá gjaldþrotaúrskurði, í febrúar árið 2012, og segir skiptastjórinn Jóhannes Albert Sævarsson í samtali við Ríkisútvarpið að þá hafi kröfuhöfum og skiptabeiðanda verið tilkynnt um skiptalokin. Aftur á móti hafi láðst að auglýsa það opinberlega í Lögbirtingablaðinu, um mannleg mistök hafi verið að ræða sem bætt var úr í dag.

Jóhannes segir að kröfuhafarnir í þrotabú F-Capital hafi verið tveir. Tollstjóri hafi lagt fram kröfu upp á 800 þúsund krónur og Arion banki kröfu upp rúma á 15 milljarða. Sem fyrr segir var búið eignalaust og fékk því ekkert upp í kröfurnar tvær.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×