Handbolti

Staðfesta komu Geirs: „Stoltur að vera orðinn Haukamaður“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Geir lék með Cesson-Rennes í fjögur ár.
Geir lék með Cesson-Rennes í fjögur ár. vísir/getty

Eins og frá var greint í Sportinu í dag og á Vísi í gær er Geir Guðmundsson á leið til Hauka. Félagið hefur nú staðfest komu Akureyringsins.

Geir skrifar undir þriggja ára samning við Hauka. Hann kemur frá Cesson-Rennes í Frakklandi þar sem hann hefur leikið undanfarin fjögur ár.

„Ég er mjög spenntur að spila fyrir Hauka á næsta tímabili, allan minn feril hafa Haukar verið toppklúbbur sem hefur barist um hvern einasta titil. Því er ég stoltur að vera orðinn Haukamaður,“ segir Geir í fréttatilkynningu á Facebook-síðu handknattleiksdeildar Hauka.

Aron Kristjánsson, nýr þjálfari Hauka, kveðst vera spenntur fyrir komu Geirs. 

„Við erum mjög ánægðir með að Geir hafi valið að ganga til liðs við okkur. Hann er kraftmikill leikmaður á góðum aldri. Við teljum að hann eigi eftir að falla vel inn í liðið okkar og geti vaxið enn meir sem leikmaður,“ segir Aron sem tekur við Haukum af Gunnari Magnússyni. Aron stýrði Haukum áður á árunum 2007-10 og 2011-13. Hann gerði Hauka þrisvar sinnum að Íslandsmeisturum og tvisvar sinnum að bikarmeisturum.

Geir, sem er 26 ára örvhent skytta, lék með Akureyri og Val áður en hann fór til Cesson-Rennes 2016. Á síðasta tímabili sínu hjá félaginu vann það frönsku B-deildina og vann sér sæti í úrvalsdeildinni.

Auk Geirs gengur landsliðsmarkvörðurinn Björgvin Páll Gústavsson í raðir Hauka í sumar.

Haukar voru í 4. sæti Olís-deildarinnar þegar tímabilið var blásið af vegna kórónuveirufaraldursins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×