Körfubolti

Af hverju má ekki ræða launamálin almennilega?

Sindri Sverrisson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, var í Sportinu í dag.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, var í Sportinu í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Það hefur alltaf verið þannig að félögunum er ekki vel við að ræða launamál, hvort sem það eru launamál erlendra eða íslenskra leikmanna,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

Grímur Atlason, stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild Vals, ræddi í gær um MBA-verkefni sitt í Sportinu í dag en verkefnið snýr að rekstrarumhverfinu í íslenskum körfubolta. Grímur sagði ljóst af svörunum sem hann fékk að körfuknattleiksfélögin vildu annað hvort halda upplýsingum um launakostnað leyndum eða þá að þau vanáætluðu hann stórkostlega. Hannes segir launamál í íþróttum á Íslandi alltaf hafa verið viðkvæmt mál.

„Þetta er líka viðkvæmt fyrir leikmennina sjálfa og virðist viðkvæmt fyrir alla. Það er meira að segja erfitt fyrir okkur hjá sambandinu að fá réttar upplýsingar frá félögunum um það hvað menn eru að gera,“ sagði Hannes við Guðjón Guðmundsson í Sportinu í dag.

„En það er ekki bara í körfuboltanum heldur heilt yfir í íþróttahreyfingunni, að það megi almennt ekki viðurkenna að leikmenn eru að fá greitt í mörgum íþróttagreinum í dag. Það er eitthvað sem við þurfum að ræða – af hverju má ekki ræða það almennilega eins og allt annað? Þetta er því stærra en bara varðandi þessa könnun. Þetta er svona heilt yfir í samfélaginu og varðandi íþróttir yfir höfuð. Við megum alveg ræða það í dag, árið 2020, að leikmenn eru alveg að fá að hluta greitt fyrir að spila, hvort sem að þeir eru Íslendingar eða erlendir.“

Rekstrarvandinn verið mikill í nokkur ár

Rekstrarvandi margra íþróttafélaga er mikill, ekki síst vegna afleiðinga kórónveirufaraldursins.

„Rekstrarvandinn er mjög mikill og búinn að vera það í nokkur ár. Rekstrarvandinn er ekki bara tilkominn í ár eða í fyrra. En kröfurnar eru líka miklar. Kröfurnar eru miklar frá samfélaginu, viðkomandi félögum, ekki bara stjórnum eða leikmönnum heldur hinum almenna áhugamanni. Sveitarfélögin vilja líka eiga öflug félög, en það er alltaf viðkvæmt í þessu að styðja almennilega við afreksíþróttir. Það á alltaf að styðja við barna- og unglingastarfið en stundum þurfa sveitarfélög og hinn almenni félagsmaður að styðja mun betur við sín félög í efstu deildum,“ segir Hannes.

Klippa: Sportið í dag - Hannes um launin í körfuboltanum

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×