Viðskipti innlent

Ís­lendingar munda greiðslu­kortin af krafti á ný

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Líflegt um að litast í Kringlunni eftir að samkomubann var rýmkað í byrjun maí.
Líflegt um að litast í Kringlunni eftir að samkomubann var rýmkað í byrjun maí. Vísir/vilhelm

Svo virðist sem hagkerfið sé nú að taka við sér samhliða því sem faraldur kórónuveiru rénar og stjórnvöld slaka á veiruaðgerðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, þar sem greint er frá greinilegum vatnaskilum um mánaðamótin, þegar vegaumferð jókst og kortavelta komst í samt horf frá því fyrir faraldur.

Bæði vegaumferð og kortavelta drógust mikið saman í upphafi faraldursins í febrúar og mars. Umsvif byrjuðu þó að aukast á ný strax í lok apríl en samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins er vegaumferð á höfuðborgarsvæðinu nú orðin svipuð og hún var áður en faraldurinn hófst.

Velta greiðslukorta sem útgefin eru á Íslandi tók jafnframt mikinn kipp um það leyti sem samkomubann var rýmkað þann 4. maí.

„Kortavelta veitir góða vísbendingu um umsvif í verslun og þjónustu. Kortavelta erlendra ferðamanna er nú lítil sem engin en á móti vegur að velta Íslendinga hefur tekið vel við sér að undanförnu, sérstaklega í upphafi maí eða um það leyti sem samkomubann var rýmkað. Samkvæmt nýjustu tölum er kortavelta Íslendinga svipuð og hún var í upphafi mars, áður en áhrifa faraldursins á umsvif í hagkerfinu tók að gæta að ráði. Leiða má að því líkur að margir hafi frestað kaupum á vöru og þjónustu þangað til eftir að samkomubannið var rýmkað,“ segir í tilkynningu.

Þá segja tölur um umferð svipaða sögu. Umferð dróst mikið saman í mars, einkum eftir að samkomubann var sett á.

„Þegar umferð var sem minnst var hún yfir 40% minni en á sama tíma í fyrra. Í kringum páska hóf umferð á höfuðborgarsvæðinu að taka við sér á ný og er hún nú orðin svipuð og hún var í upphafi þessa árs en þó um 9% minni en á sama tíma í fyrra. Það virðist að miklu leyti skýrast af minni fjölda erlendra ferðamanna þar sem umferð hefur dregist meira saman á leiðinni milli Keflavíkurflugvallar og miðborgarinnar en öðrum vegum á svæðinu. Umferð á Reykjanesbraut nálægt Vogum er enn um þriðjungi minni en á sama tíma í fyrra.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×