Viðskipti erlent

Sádar og Rússar deila enn

Samúel Karl Ólason skrifar
Verðstríð Sáda og Rússa hefur komið verulega niður á olíuframleiðendum í Bandaríkjunum.
Verðstríð Sáda og Rússa hefur komið verulega niður á olíuframleiðendum í Bandaríkjunum. AP/Eli Hartman

Ekki er útlit fyrir að deilu Sádi-Arabíu og Rússlands fari að ljúka. Háttsettir embættismenn í Sádi-Arabíu hafa gagnrýnt Rússa harðlega í dag og sakað embættismenn í Rússlandi um ósannindi. Þykir það til marks um að samkomulag á milli þeirra sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á dögunum, sé í ekki klárt og er óljóst hvort viðræður hafi átt sér stað.

Sádar segja rússneska embættismenn fara með ósannindi þegar þeir segja að Sádar hafi valdið verðstríðinu og gífurlegum lækkunum á olíumörkuðum.

Tvær tilkynningar voru sendar út frá yfirvöldum Sádi-Arabíu í dag. Önnur frá Faisal bin Farhan, utanríkisráðherra landsins, og ber hún titilinn: Yfirlýsingar í fjölmiðli forseta Rússlands eru alfarið rangar.

Í yfirlýsingunni segir að það hafi verið Rússar sem neituðu að vinna með Samtökum olíuútflutningslanda, eða OPEC, sem Sádar svo gott sem stýra, um að draga úr framleiðslu og halda olíuverði uppi í ljósi mikils samdráttar í eftirspurn vegna heimsfaraldurs nýju kórónuveirunnar.

Þegar Rússar neituðu byrjuðu Sádar að auka framleiðslu olíu með því markmiði að refsa Rússum. Síðan þá hefur olíuverð um heim allan lækkað verulega.

Sjá eining: Olíuiðnaðurinn aldrei upplifað annað eins áfall og nú

Farhan sagði líka að ekkert væri til í því að Sádar væru að reyna að skaða olíuframleiðendur í Bandaríkjunum.

Reyna að forðast deilur við Bandaríkin

Hin tilkynningin kom frá Abdulaziz bin Salman, orkumálaráðherra og einum af sonum konungsins. Hann nefndi Alexander Novak, orkumálaráðherra Rússlands, sérstaklega og sagði ummæli hans um að Sádar væru að reyna að klekja á olíuframleiðendum í Bandaríkjunum ekki rétt.

Sagðist hann hissa á tilraunum Rússa til að skapa deilur á milli olíuframleiðenda í Sádi-Arabíu og í Bandaríkjunum.

Í frétt AP fréttaveitunnar segir líklegt að Sádar séu með þessu að reyna að koma í veg fyrir deilur við Trump vegna slæmrar stöðu olíuvinnslu í Bandaríkjunum.

Dýr framleiðsla í Bandaríkjunum

Olíuvinnsla í Bandaríkjunum er að meðaltali mun dýrari en hefðbundin olíuvinnsla. Í Bandaríkjunum er að mestu notast við Bergbrot og leirsteinavinnslu og breytti það Bandaríkjunum á einum áratug úr innflytjenda olíu í stærsta olíuframleiðanda heims.

Þar að auki eru bandarísk olíufyrirtæki tiltölulega skuldsett og ekki vel í stakk búin til að takast á við tekjulækkun og þá sérstaklega ekki til langs tíma.

Sjá einnig: Í verðstríði Sáda og Rússa, tapa Bandaríkin

Trump sagði í tísti á fimmtudaginn að hann hefði rætt við Mohammed bin Salmann, krónprins Sádi-Arabíu, sem hefði rætt við Vladimir Pútín, forseta Rússlands, og að bæði Rússar og Sádar myndu draga töluvert úr framleiðslu. Ekkert hefur þó orðið úr því.

Olíuverð hækkaði verulega í kjölfar tísts Trump en féll aftur þegar óljóst varð hvort hann hafi verið að segja satt frá. Hvorki Sádar né Rússar hafa staðfest orð Trump. Áframhaldandi deilur þeirra þykja frekari vísbendingar um að ekkert samkomulag sé til staðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×