Viðskipti innlent

Landsframleiðsla gæti dregist saman um 13% vegna veirunnar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs
Konráð S. Guðjónsson hagfræðingur Viðskiptaráðs

Landsframleiðsla gæti dregist saman um 13 prósent á árinu vegna kórónuveirunnar samkvæmt sviðsmyndagreiningu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands. Það kæmi Konráði S. Guðjónssyni, aðalhagfræðingi Viðskiptaráðs Íslands, á óvart ef Seðlabankinn lækkar ekki vexti í næstu viku þegar peningastefnunefnd tilkynnir um ákvörðun bankans.

„Þetta er það sem er að gerast núna með fækkun ferðamanna og allra þessa beinu og óbeinu áhrifa sem hljótast vegna heimsfaraldursins. Við horfum fram á verulegan samdrátt í landsframleiðslu í ár. Það er mikil óvissa uppi en eins og við teiknum upp í þessari greiningu þá gerum við ráð fyrir átta til átján prósenta samdrætti í landsframleiðslu. Þrettán prósenta samdrætti samkvæmt grunnsviðsmynd. Hvar nákvæmlega á þessu bili samdrátturinn verður er erfitt að segja til um en við teljum þessar sviðsmyndir raunhæfar. Það kallar á að þeim sé tekið alvarlega að hagstjórn og öll viðbrögð miði við að þetta verði mikið högg.“

Konráð væntir þess að Seðlabankinn lækki stýrivexti í næstu viku þegar peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnir um næstu ákvörðun bankans.

„Aðstæðurnar hafa mikið breyst og myndin hefur aðeins skýrst frá því í mars þegar það heyrðist síðast frá Seðlabankanum og myndin er dekkri frekar en hitt síðan þá þannig að það kæmi mjög á óvart ef ekki yrðu stigin myndarleg skref í næstu viku.“

Hann segir Seðlabanka í löndunum sem við berum okkur saman við hafa gengið mun lengra en hinum íslenska í að lækka vexti. Sumir séu jafnvel komnir með neikvæða stýrivexti til að smyrja hjól efnahagslífsins.

„Það eru önnur rök fyrir því að Seðlabankinn hefur mikið svigrúm til að hjálpa. Hann er náttúrulega með hærri vexti en í flestum okkar viðskiptalöndum. Hann hefur ekki beitt skuldabréfakaupum eins og seðlabankar erlendis hafa gert í gríð og erg þannig að hann hefur fullt af vopnum í vopnabúrinu sem hann getur nýtt, og hefur forsendur til að nýta, vegna stöðunnar sem er að teiknast upp.“

Sviðsmyndagreining Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands var unninn áður en stjórnvöld tilkynntu um tilslakanir á ferðatakmörkunum.

„Þær sannarlega gætu fært okkur að mildari sviðsmyndum en ég held það sé fullsnemmt að fara að fullyrða um það því það eru enn ferðatakmarkanir í öðrum löndum og miðað við könnun frá bandaríkjunum þá er ferðavilji og vilji til að ferðast með flugvélum takmarkaður að því er virðist. Við verðum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast. Þetta er þó vissulega gott skref og vonandi hjálpar það okkur að færast nær mildari sviðsmyndum en þeim dekkri.“


Tengdar fréttir

Sjá fram á lengri kórónuveirukreppu

Forsvarsmenn fyrirtækja innan vébanda Samtaka atvinnulífsins áætla að frekari uppsagnir séu væntanlegar og að kórónuveirukreppan verði lengri en þeir töldu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×