Skoðun

Siðlaus stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík

Björn Grétar Sveinsson skrifar
Fyrr á þessu ári var framkvæmdastjóra Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni (FEB) sagt upp störfum án skýringa. Sterkar líkur hafa verið leiddar að því að raunverulegar ástæður uppsagnarinnar væru athugasemdir framkvæmdastjórans við óeðlilega háar greiðslur til eiginmanns gjaldkera stjórnarinnar, vegna vikulegs tónlistarflutnings hans á dansleikjum félagsins.

Það er athyglisvert að þessi uppsögn er ákveðin hálfum mánuði eftir aðalfund félagsins en á fundinum var hvergi minnst á að uppsögn framkvæmdastjóra stæði til eða væri til skoðunar. Framkvæmdastjórinn var þá nýorðinn 60 ára og félagsmaður í FEB, sem á að öllu eðlilegu að standa vörð um hagsmuni fólks á þessum aldri, en ekki valda því tjóni.

Félagsfundur um uppsögn

Í lögum félagsins segir: „Fari 30 félagsmenn fram á það er stjórn félagsins skylt að halda félagsfund.“ Hátt í 300 félagsmenn kröfðust þess að haldinn yrði almennur félagsfundur þar sem stjórnin myndi útskýra ástæður uppsagnarinnar. Var félagsfundur haldinn hinn 14. apríl í vor og var einn fjölmennasti félagsfundur sem haldinn hefur verið í samkomusal félagsins. Fundarstjóri var tilnefndur af stjórn félagsins.

Á fundinum var samþykkt nær einróma áskorun til stjórnar félagsins að draga uppsögn framkvæmdastjórans til baka, enda komu engar haldbærar skýringar fram um ástæður uppsagnarinnar. Einnig lá fyrir fundinum tillaga um vantraust á stjórn félagsins. Eftir langar og heitar umræður um tillöguna virtist öruggt að hún yrði sömuleiðis samþykkt með miklum meirihluta atkvæða fundarmanna. Fundarstjórinn bjargaði stjórninni þá fyrir horn og neitaði að bera vantrauststillöguna undir atkvæði. Hann úrskurðaði að til að bera upp vantrauststillögu á stjórn þyrfti að boða til nýs fundar.

Fundargerð félagsfundarins hefur enn ekki birst á vefsíðu félagsins og stjórnin ekki gengist við uppsögn framkvæmdastjórans. Engin tilkynning hefur borist félagsmönnum um uppsögnina. Fundargerð frá félagsfundinum í apríl hefur ekki komið fram, nú 7 mánuðum síðar. Það er farið með þessa ákvörðun stjórnarinnar eins og mannsmorð sem minnir helst á stjórnarhætti í Kína eða Norður-Kóreu, þar sem reynt er að þegja óþægilegar og vondar ákvarðanir í hel. Stjórn frjálsra félagasamtaka eldri borgara á Íslandi árið 2014 fer eins að; tekur siðlausa geðþóttaákvörðun um uppsögn framkvæmdastjóra félagsins og reynir svo að láta líta út fyrir að ekkert hafi gerst.

Krefjast nýs félagsfundar

Í september sl. fóru svo rúmlega 40 félagsmenn fram á, með vísan til orða fundarstjóra á félagsfundi sl. vor, að nýr félagsfundur yrði haldinn og að á dagskrá yrði tillaga um vantraust á stjórn félagsins, m.a. fyrir að hafa á engan hátt sinnt eða orðið við kröfu hins fjölmenna félagsfundar í apríl eða að stjórnin hygðist hlusta á eða fara að lýðræðislegum kröfum félagsmanna. Þetta var ekki bænaskrá eins og Íslendingar sendu Danakonungum á sinni tíð. Þetta var krafa félagsmanna í lýðræðislegum samökum með vísan til laga félagsins. Stjórn félagsins hefur engin viðbrögð sýnt við þessari kröfu, nú tveimur mánuðum eftir að hún var afhent og brýtur þar með ótvírætt lög eigin félags.

Óheiðarleiki formanns og gjaldkera

Það er athyglisvert að gjaldkeri stjórnarinnar er einnig varaformaður í stéttarfélagi innan BHM og formaðurinn er fyrrum formaður starfsmannafélagsins Sóknar. Sem varamaður á Alþingi í stuttan tíma fyrir alllöngu var hún m.a. meðflutningsmaður lagafrumvarps um skyldur atvinnurekenda til að rökstyðja uppsagnir. Hún hefur sjálf ekki getað rökstutt þá uppsögn sem hún undirritaði hjá Félagi eldri borgara sl. vor. Stundum er sagt að athafnir manna séu siðlausar en löglegar. Athafnir stjórnar FEB eru siðlausar og ólöglegar. Því miður er hræsnin og þöggunin allsráðandi í Félagi eldri borgara í Reykjavík þessa dagana.




Skoðun

Sjá meira


×