Viðskipti erlent

Davos: Vont en það versnar

Klaus Schwab, stofnandi Davos ráðstefnunnar.
Klaus Schwab, stofnandi Davos ráðstefnunnar.

Valdamestu menn jarðar sem nú ræða framtíðina í svissneska fjallaþorpinu Davos sögðu í dag að fjármálarkreppan í heiminum væri bara að byrja og að hún ætti eftir að versna. Stjórnarformaður Citibank sagði í viðtali við Reuters að það muni taka dágóðan tíma fyrir fjármálakerfi heimsins að rétta úr kútnum eftir óróa síðustu missera og líkti hann stöðunni við hafnaboltaleik. „Ef leikurinn er níu lotur þá má segja að við séum í fimmtu lotu eins og stendur, sagði hann.

Viðskiptamógúlarnir áttu það allir sameiginlegt að vonast eftir því besta en óttast það versta. Davos fundinn ber upp í viku þegar bandaríski seðlabankinn lækkar vexti meira en hann hefur gert í tvo áratugi til þess að bregðast við ástandinu. Það bætti svo ekki skapið í mönnum þegar upp komst um stórfelld fjársvik starfsmanns í franska bankanum SocGen.

„Það mun líða nokkur tími þangað til bankaheimurinn og fjármálageirinn kemst aftur í eðlilegt horf," sagði Jogn Thain, stjórnarformaður Merryl Lynch og bætti því við að ástandið á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum ætti eftir að versna og að ólíklegt væri að vaxtalækkanir seðlabankans og innspýting hins opinbera komi til með að bæta ástandið mikið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×