Skoðun

Lím­trés­bitar úr ís­lensku timbri

Eiríkur Þorsteinsson og Jón Sigurjónsson skrifa

Samstarfsverkefni Límtrés Vírnets, Skógræktarinnar og Nýsköpunarmiðstöðvar

Nytjaskógrækt á sér ekki langa sögu á Íslandi en nú bendir margt til að á næstu áratugum verði hér hægt að byggja upp blómlegan timburiðnað með sjálfbærri skógrækt og sterkum innviðum. Til þess þarf að innleiða skilvirkni í skógrækt sem og alla úrvinnslu, en það er flókið ferli og kostnaðarsamt. Leggja þarf áherslu á gæðavottanir, svo sem CE-merkingu, en hún gefur til kynna að varan uppfylli lágmarkskröfur um öryggi og heilsuvernd sem settar eru fram í Evróputilskipunum. Einnig þarf að samræma og aðlaga íslenska staðla að úrvinnslunni. 

Prófanir á ösp við Rb á Nýsköpunarmiðstöð.Hjörleifur Jónsson

Tilgangur þessa rannsóknaverkefnis er kanna nýtileika á íslensku timbri í límtrésbitaframleiðslu með það að markmiði að draga úr innflutningi á timbri og minnka þar með kolefnisspor byggingarvörunnar, sem og stuðla að því að Ísland verði sjálfbærara um byggingarefni.

Ösp, lerki, fura og greni

Fjórar trjátegundir voru notaðar í verkefninu, alaskaösp (populus trichocarpa), rússalerki (larix sukaczewii), stafafura (pinus contorta) og sitkagreni (picea sitchensis). Þessar tegundir voru valdar því þær, ásamt birki (betula pubescens), eru algengastar í íslenskri skógrækt. Tegundirnar fjórar hæfa einnig best fyrir timburframleiðslu á Íslandi. Öll trén sem felld voru fyrir verkefnið voru fengin í Þjórsárdal í skógum Skógræktarinnar, fyrir utan alaskaösp sem kom frá Tumastöðum í Fljótshlíð, einnig úr landi Skógræktarinnar.

Hjörleifur Jónsson

Til að fá sem raunhæfastan samanburð milli bita úr hefðbundinni límtrésframleiðslu og bita framleiddum úr íslenskum viði voru hafðir sem viðmið límtrésbitar sem límdir voru úr hefðbundnu efni, þ.e. límtrésfjalir úr rauðgreni frá Svíþjóð.

Viður brotinn með vökvatjakki

Prófunin var framkvæmd þannig að einfalt studdir bitarnir voru fergðir til brots með vökvatjakki með tveimur punktálögum í þriðjungspunktum bitans. Skráður var kraftur hvers álagsþreps og niðurbeygja á miðjum bitanum mæld, lokakraftur við brot skráður og myndir teknar af brotmynstri auk sýnatöku fyrir rúmþyngdar- og rakainnihaldsákvarðanir.

Hjörleifur Jónsson

Fyrstu niðurstöður útreikninga gefa til kynna að beygjutogþol límtrésbitanna vaxi eftir timburgerð frá furu til grenis, lerkis og aspar en sé mest hjá sænska rauðgreninu. Sérstaka athygli vakti hvað íslenska öspin kom vel út í samanburðarmælingum límtrésbitanna á beygjutogþoli. Til að draga megi afdráttarlausar ályktanir af niðurstöðunum þarf að gera umfangsmeiri prófanir með umtalsvert fleiri sýnum.

Höfundar gegndu starfi yfirverkfræðings og verkefnastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands en verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktina og Límtré Vírnet.

Þessi grein er hluti af ritröðinni Nýsköpun og rannsóknir sem varpar ljósi á fjölbreyttar vísindarannsóknir og nýsköpunarstarf sem unnið er að hérlendis. Greinarnar eru skrifaðar af starfsmönnum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og eru úr ársskýrslu miðstöðvarinnar. Nánari upplýsingar um Nýsköpunarmiðstöð Íslands eru á www.nmi.is.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×