Handbolti

Kiel lagði AG í Meistaradeildinni

Alfreð fagnaði í dag.
Alfreð fagnaði í dag.
Lærisveinar Alfreðs Gíslasonar hjá Kiel höfðu betur gegn danska ofurliðinu AG Köbenhavn í Meistaradeildinni í dag. Lokatölur 28-26 í bráðfjörugum og skemmtilegum leik.

Leikmenn AG mættu gríðarlega einbeittir til leiks og hleyptu hraðlest Kiel ekki á neitt flug. Smám saman náði AG völdum á leiknum og leiddi í hálfleik með tveim mörkum, 12-14.

Þeir héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og um miðjan hálfleik munaði í fyrsta skipti þrem mörkum á liðunum, 17-20. Þá fór allt í baklás hjá AG. Kiel gekk á lagið, skoraði 5 mörk í röð og náði tökum á leiknum.

AG náði mest að minnka muninn aftur í eitt mark en lokamínúturnar voru heimamanna sem fögnuðu sætum sigri.

Ólafur Stefánsson lék allan leikinn fyrir AG en það vakti athygli þar sem hann er nýstiginn upp úr meiðslum. Ólafur lék vel sem og Snorri Steinn Guðjónsson sem spilaði lungann úr leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson lék allan leikinn í horninu og skoraði þrjú mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×