Viðskipti innlent

Seðlabankinn veitti heimild til skortstöðu gegn krónunni

Seðlabankinn veitti bönkunum heimild til skortstöðu gegn krónunni á síðasta ári. Megnið af gengishruni krónunnar á þessum tíma má skrifa á reikning Seðlabankans, og þá einkum Davíðs Oddssonar þáverandi bankastjóra bankans.

Ólafur Arnarson kemur inn á þetta í bók sinni Sofandi að feigðarósi. Og hópur nemenda Guðmundar Ólafssonar hagfræðings við Bifröst hefur safnað gögnum um gengisþróunina frá áramótum 2008 og fram til ársloka sem sýnir glögglega hvernig gengið féll skömmu fyrir hver ársfjórðungsskipti eða skömmu áður en bankarnir birtu uppgjör sín.

Ólafur segir í samtali við Fréttastofu að Straumur hafi fengið leyfi hjá ársreikningaskrá til að færa bókhald sitt í evrum árið 2007. Við þær fregnir hafi Davíð Oddsson gengið af göflunum og fengið fjármálaráðherra til að breyta reglum þannig að þær bankastofnanir sem ætluðu að breyta bókhaldi sínu yfir í erlenda mynt þyrftu leyfi Seðlabankans til slíks.

Kaupþing sótti um að fá að færa bókhald sitt í evrum fyrir áramótin 2007 enda var erlend starfsemi bankans þá orðin 80% af heildarumsvifum bankans. Þessu hafnaði Davíð Oddsson alfarið. Kaupþing dró síðan umsókn sína til baka í ársbyrjun í fyrra.

"Kaupþing átti þá ekki annan kost en að taka stöðu gegn krónunni til að verja 80% umsvifa sinna gegn gengissveiflum," segir Ólafur. "Kaupþing og raunar hinir bankarnir tveir fengu svo heimild frá Seðlabankanum til þess að taka skortstöðu gegn krónunni. Afleiðingarnar voru hrun íslensku krónunnar. Það má sjá að hrunið hefst fyrst að ráði eftir að Seðlabankinn hafnaði umsókn Kaupþings um evruvæðingu bókhaldsins."

Ólafur segir að ef Kaupþing hefði fengið leyfi til að gera upp í evrum hefði dæmið algerlega snúist við. Þá hefði bankinn væntanlega tekið stöðu með krónunni til að verja 20% umsvifa sinna í íslenskum krónum og það hefði að öllu líkindum leitt til styrkingar á krónunni á síðasta ári. Enda var efnahagsreikningur Kaupþings á þessum tíma orðinn á við fjórfalda landsframleiðslu Íslands.

Guðmundur Ólafsson segir að þær upplýsingar sem nemendur hans hafi safnað saman vegna annaverkefnis síns sýni að gengishrunið megi skrifa á reikning bankanna. Hann nefnir einnig að þýska tímaritið Der Spiegel hafi birt grein s.l. sumar þar sem sagt er frá þessu máli.

"Það er augljóst að bankarnir voru að taka stöðu gegn þjóðinni með þessum gjörðum sínum," segir Guðmundur og bendir á að hann og Sigurður G. Tómasson hafi margrætt þetta mál í þáttum sínum á Útvarpi Sögu frá síðasta sumri en að enginn annar fjölmiðill hafi tekið málið upp á þessum tíma.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×