Viðskipti innlent

Samkeppniseftirlitið rannsakar viðskipti með bréf Brims

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Guðmundur Kristjánsson sagði skilið við forstjórastöðuna hjá Brimi í liðinni viku.
Guðmundur Kristjánsson sagði skilið við forstjórastöðuna hjá Brimi í liðinni viku. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Samkeppnisyfirlitið hyggst rannsaka „hvort stofnast hafi til yfirráða Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila í Brimi hf. vegna tiltekinna viðskipta Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. og tengdra aðila á árinu 2019 með eignarhluti í Brimi hf,“ eins og það er orðað í tilkynningu Brims til Kauphallarinnar í gærkvöld.

Það sé mat Samkeppniseftirlitsins að umrædd viðskipti hafi verið „þess fallin að hafa áhrif á mat á yfirráðum í félaginu í skilningi samkeppnislaga.“ Við rannsókn sína myndi Samkeppniseftirlitið taka afstöðu til þess hvort að við mögulega myndun yfirráða í Brimi hafi verið framkvæmdur samruni í andstöðu við samkeppnislög.

Sjá einnig: Brim kaupir tvær útgerðir af bróður Guðmundar á þrjá milljarða

Samhliða þessari yfirlýsingu tilkynnti Samkeppniseftirlitið Brimi að það „teldi ekki ástæðu til að aðhafast frekar“ vegna kaupa félagsins á Fiskvinnslunni Kambi hf. og Grábrók ehf. í október í fyrra. Eins og Vísir greindi frá á sínum tíma var stærsti hluthafinn í báðum félögunum bróðir Guðmundar Kristjánssonar, þáverandi forstjóra Brims.

Guðmundur ákvað að segja skilið við forstjórastöðuna í liðinni viku vegna persónulegra ástæðna en mun þó áfram sitja í stjórn félagsins. Hann er þó eftir sem áður aðaleigandi stærsta hluthafa Brims, fyrrnefnds Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem fer með tæplega 45 prósent hlut í útgerðarfélaginu.

Guðmundur taldi ekki tímabært að tjá sig nánar um persónulegu ástæðurnar fyrir því að hann ákvað að stíga úr stóli forstjóra. Hann ætti jafnvel von á að senda frá sér tilkynningu vegna þessa innan tíðar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×