Ginobili er kannski ein óvæntasta stjarna í sögu NBA-deildarinnar en fáir vissu hver hann var þegar að Spurs valdi hann 57. í nýliðavalinu árið 1999.
Hann átti eftir að heilla aðdáendur NBA-deildarinnar næstu 16 árin og vinna fjóra meistaratitla með San Antonio en Argentínumaðurinn var tvisvar sinnum valinn í stjörnulið vesturdeildarinnar og þá var hann sjötti maður ársins árið 2008.
Gregg Popovich, þjálfari San Antonio, og fyrrverandi liðsfélagar Ginobili á borð við Tony Parker og Tim Duncan héldu ræður um félaga sinn í gærkvöldi og verður ekki annað sagt en að Tim Duncan hafi farið á kostum.
„Ég hringdi í Pop og spurði hver þetta væri og hann svaraði að þetta væri öflugur leikmaður. Ég nennti ekki að spá meira í þessu á þeim tíma því hann kom ekki fyrr en tveimur árum seinna.“
Ginobili mætti svo sumarið 2002 til leiks þegar að leikmenn Spurs voru að leika sér í körfubolta í æfingasal félagsins og lét Bruce Bowen, einn besti varnarmaður sögunnar, Ginobili heldur betur finna fyrir því í leiknum.
„Bowen beitti öllum brögðunum í bókinni en Manu lét sér fátt um finnast. Hann breytti aldrei leik sínum og fór ekki að væla. Hann hélt bara áfram og þá vissi ég að þetta væri alvöru leikmaður,“ sagði Tim Duncan.
Alla athöfnina má sjá hér að neðan en Duncan stígur á svið eftir rúmar 23 mínútur.