Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar eru komnir í úrslit um danska meistaratitilinn í handbolta eftir ótrúlegan sigur á Skjern í oddaleik í undanúrslitunum í dag, 28-25.
Útlitið var ekki gott fyrir GOG sem var tveimur mörkum undir, 21-23, þegar rúmar sex mínútur voru eftir.
GOG átti hins vegar magnaðan endasprett, skoraði sjö af síðustu níu mörkum leiksins og vann þriggja marka sigur, 28-25, á meisturum síðasta tímabils.
Óðinn skoraði tvö mörk úr tveimur skotum fyrir GOG. Björgvin Páll Gústavsson varði eitt vítakast fyrir Skjern en Tandri Már Konráðsson var ekki á meðal markaskorara.
Í úrslitunum mætir GOG Janusi Daða Smárasyni, Ómari Inga Magnússyni og félögum í Aalborg.
Óðinn og félagar í úrslit eftir magnaðan endasprett
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
