Fótbolti

Xavi og lærisveinar hans einu skrefi nær því að mæta Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernández stýrir liði Al-Sadd í Katar.
Xavi Hernández stýrir liði Al-Sadd í Katar. Getty/Simon Holmes

Heimsmeistarakeppni félagsliða er farin af stað í Katar þrátt fyrir að það séu enn sex dagar þar til að Evrópumeistarar Liverpool liðið spili sinn fyrsta leik í keppninni.

Heimamenn í Al-Sadd frá Katar eru einu skrefi nær því að mæta Liverpool eftir 3-1 sigur á Hienghène Sport frá Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi.

Knattspyrnustjóri Al-Sadd liðsins er Spánverjinn Xavi Hernández sem átti magnaðan sautján ára feril með aðalliði Barcelona og er einn sigursælasti knattspyrnumaður allra tíma.

Með sigrinum tryggði Al-Sadd sér sæti í annarri umferð þar sem liðið mætir Monterrey frá Mexíkó. Al-Sadd og Monterrey mætast á laugardaginn og sigurvegarinn mætir síðan Liverpool í undanúrslitum keppninnar.



Al-Sadd var samt í vandræðum með að skora og tryggði sér ekki sigurinn fyrr en í framlengingunni. Al-Sadd var 69 prósent með boltann og reyndi 37 skot í leiknum en leikmenn liðsins klúðruðu fjölda færa í venjulegum leiktíma.

Alsíringurinn Baghdad Bounedjah kom Al-Sadd í 1-0 í fyrri hálfleik en Amy Roine jafnaði metin þar sem Varsjáin kom í veg fyrir að markið væri dæmt af. Staðan var 1-1 í leikslok og því þurfti að framlengja.

Abdelkarim Hassan og Pedro Miguel skoruðu báðir í framlengingunni og tryggðu Al-Sadd 3-1 sigur.

Undanúrslitaleikur Liverpool fer fram 18. desember en í hinum undanúrslitaleiknum mætast brasilíska liðið Flamengo og sigurvegarinn úr leik Al-Hilal frá Sádi-Arabíu og Espérance de Tunis frá Túnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×