Fótbolti

Xavi og lærisveinar hans einu skrefi nær því að mæta Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernández stýrir liði Al-Sadd í Katar.
Xavi Hernández stýrir liði Al-Sadd í Katar. Getty/Simon Holmes

Heimsmeistarakeppni félagsliða er farin af stað í Katar þrátt fyrir að það séu enn sex dagar þar til að Evrópumeistarar Liverpool liðið spili sinn fyrsta leik í keppninni.

Heimamenn í Al-Sadd frá Katar eru einu skrefi nær því að mæta Liverpool eftir 3-1 sigur á Hienghène Sport frá Nýju-Kaledóníu í Kyrrahafi.

Knattspyrnustjóri Al-Sadd liðsins er Spánverjinn Xavi Hernández sem átti magnaðan sautján ára feril með aðalliði Barcelona og er einn sigursælasti knattspyrnumaður allra tíma.

Með sigrinum tryggði Al-Sadd sér sæti í annarri umferð þar sem liðið mætir Monterrey frá Mexíkó. Al-Sadd og Monterrey mætast á laugardaginn og sigurvegarinn mætir síðan Liverpool í undanúrslitum keppninnar.


Al-Sadd var samt í vandræðum með að skora og tryggði sér ekki sigurinn fyrr en í framlengingunni. Al-Sadd var 69 prósent með boltann og reyndi 37 skot í leiknum en leikmenn liðsins klúðruðu fjölda færa í venjulegum leiktíma.

Alsíringurinn Baghdad Bounedjah kom Al-Sadd í 1-0 í fyrri hálfleik en Amy Roine jafnaði metin þar sem Varsjáin kom í veg fyrir að markið væri dæmt af. Staðan var 1-1 í leikslok og því þurfti að framlengja.

Abdelkarim Hassan og Pedro Miguel skoruðu báðir í framlengingunni og tryggðu Al-Sadd 3-1 sigur.

Undanúrslitaleikur Liverpool fer fram 18. desember en í hinum undanúrslitaleiknum mætast brasilíska liðið Flamengo og sigurvegarinn úr leik Al-Hilal frá Sádi-Arabíu og Espérance de Tunis frá Túnis.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.