Viðskipti innlent

Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs haggast ekki

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þrjú matsfyrirtæki meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Þau eru, auk Fitch Ratings, Moody's Investors Service og Standard & Poor's.
Þrjú matsfyrirtæki meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Þau eru, auk Fitch Ratings, Moody's Investors Service og Standard & Poor's.
Lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs eru óbreyttar, langtímaeinkunnir í innlendri og erlendri mynt standa í A og skammtímaeinkunnir eru óbreyttar í F1+, hæstu einkunn í flokknum. Horfur eru stöðugar. Þetta kemur fram í mati matsfyrirtækisins Fitch Ratings á lánshæfi ríkissjóðs sem birt var í dag.

Tilkynnt er um hið nýbirta mat á vef fjármálaráðuneytisins. Haft er upp úr fréttatilkynningu Fitch að A-lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli m.a. háa landsframleiðslu á mann og góða stöðu ríkisfjármála. Stærð hagkerfisins og takmarkaður fjölbreytileiki útflutnings dragi einkunnina hins vegar niður.

„Verulegur bati á efnahagsreikningi hins opinbera, studd varfærinni stefnu í opinberum fjármálum, ásamt frekari bata í ytri stöðu og viðnámsþrótti hagkerfisins til að bregðast við ytri áföllum, gætu leitt til hærri lánshæfiseinkunnar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Hins vegar gæti „viðvarandi og skarpari niðursveifla“ en gert er ráð fyrir nú, með tilheyrandi áhrifum á bankakerfið, ásamt verulegu fjármagnsútflæði sem ógnað gæti fjármálastöðugleika, leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.

Þrjú matsfyrirtæki meta lánshæfi Ríkissjóðs Íslands. Þau eru, auk áðurnefnds Fitch Ratings, Moody’s Investors Service og Standard & Poor’s. Lánshæfismat gegnir mikilvægu hlutverki á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Matsfyrirtækin veita lántakendum á mörkuðum lánshæfiseinkunn sem hefur mikil áhrif á lánskjör þeirra, að því er segir um lánshæfi ríkissjóðs á vef Seðlabanka Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×