Gagnrýni

Erfiðleikar mannsins

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Kokkáll er fyrsta skáldsaga Dóra DNA.
Kokkáll er fyrsta skáldsaga Dóra DNA.
Stjörnur: *** 1/2

Kokkáll 


Dóri DNA

Útgefandi: Bjartur

Fjöldi síðna: 336Fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness Halldórssonar, eða Dóra DNA, er einstaklega vel heppnuð og fjallar um undarlegt tilfinningalíf mannskepnunnar á skemmtilegan og frumlegan hátt.

Í Kokkál fáum við að kynnast einum slíkum; óöruggum, bældum, ungum karlmanni sem vinnur nokkuð litlaust og leiðinlegt starf á auglýsingastofu, Össa. Sagan tekur á erfiðum spurningum um lífið og tilveruna og hverfist öll um Össa sem neyðist til að horfast í augu við vandamál sín, sem hafa elt hann úr æsku, eftir afdrifaríka nótt í Chicago þegar hann leyfði öðrum karlmanni að sofa hjá kærustunni sinni.

Viðfangsefnið er nýstárlegt og áhugavert að mörgu leyti og tekur höfundurinn þannig á grundvallarerfiðleikum fólks, í samskiptum við sjálft sig og aðra, í gegnum mann með nokkuð óhefðbundnar kenndir. Hvers vegna vill aðalpersónan að aðrir menn sængi hjá konunni hans? Endurspeglar það sjálfseyðingarhvöt hans og undirgefni eða er það kannski á einhvern hátt valdeflandi? Þetta eru hlutir sem lesandi spyr sig við lesturinn og aðalpersónan spyr sig jafnvel sjálf því hún virðist í mestu erfiðleikum með að átta sig á því hver hún raunverulega sé.

Það er jafnvel gegnumgangandi þema bókarinnar; allar persónurnar virðast vera í stöðugri leit að sjálfum sér og framkvæma leitina á missmekklegan og árangursríkan hátt, að einni persónu undanskilinni. Andrea, æskuvinkona Össa, sker sig úr sem eina persónan sem virðist vera með allt sitt á hreinu og nær að njóta lífsins í botn en Andrea er með Downs-heilkenni.

Höfundurinn skrifar skemmtilega og frásagan rennur óhindrað og nokkuð skipulega áfram. Húmor er ekki beint í fyrirrúmi en það má þó greina undirliggjandi háð hjá höfundinum sem ræðir erfiðleika mannsins á undarlega léttan og tilgerðarlausan hátt. Hugmyndin að sögunni er frumleg og skemmtileg og atburðarásin er fremur ófyrirsjáanleg sem heldur lesandanum við efnið.

Persónusköpun Dóra stendur upp úr og lýsingar hans á hugmyndum og hugsjónum þeirra í formi skemmtilegra líkinga. Sumt hefði mátt fara betur, í seinni hluta bókarinnar sérstaklega, eins og eðlilegt er í fyrstu skáldsögu en hér er um að ræða höfund sem verður mjög spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

Niðurstaða: Frábær frumraun í skáldsagnagerð. Lauflétt frásögn sem tekur þó á stórum spurningum um eðli mannsins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.