Viðskipti innlent

Átján sagt upp hjá Prentmeti Odda

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Prentmet Oddi er til húsa að Höfðabakka 7.
Prentmet Oddi er til húsa að Höfðabakka 7. Skjáskot/ja.is
Átján starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá prentsmiðjunni Prentmeti Odda. Þetta staðfestir Guðmundur Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri Prentmets Odda í samtali við Vísi. DV greindi fyrst frá.

Guðmundur segir að uppsagnirnar séu nauðsynlegar hagræðingaraðgerðir en vísaði að öðru leyti í frétt DV. Þar segir að umræddir starfsmenn hafi starfað í prentiðjuhluta fyrirtækisins og þeir hafi jafnframt verið „Odda-megin“.

Guðmundur bendir þó á að átján starfsmönnum hafi verið sagt upp hjá prentsmiðjunni en ekki nítján, líkt og segir í fréttinni.

Samkeppniseftirlitið samþykkti í lok október kaup Prentmets á Odda. Þar með varð til sameinað félag Prentmets Odda með aðsetur að Höfðabakka 7, þar sem Oddi hafði verið til húsa. Félagið tók til starfa í byrjun nóvember.

Í tilkynningu um samrunann frá 28. október síðastliðnum segir að hjá sameinuðu félagi starfi um hundrað manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×